Lögreglan ákærir Lochte

Ryan Lochte hefur ekki náð að synda þessu máli í …
Ryan Lochte hefur ekki náð að synda þessu máli í land. AFP

Lögreglan í Brasilíu hefur ákært bandaríska sundkappann Ryan Locthe fyrir að hafa sagt ósatt við gerð lögregluskýrslu, en hann hélt því fram að hann hefði verið rændur meðan á Ólympíuleikunum stóð í Rio de Janeiro.

Brasilíska lögreglan hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem fram kemur að Locthe verði upplýstur um málið í Bandaríkjunum svo hann geti ákveðið hvort hann vilji taka til varna í Brasilíu. 

Þá segir að ákæran verði einnig send til siðanefndar Alþjóðaólympíunefndarinnar, að því er fram kemur á vef Washington Post.

Lochte hélt því upphaflega fram að hann, ásamt félögum sínum úr bandarísku sundsveitinni, þeim Jack Conger, Gunnar Bentz og Jimmy Feigen, hefðu verið rændir um borð í leigubifreið er þeir yfirgáfu samkvæmi 15. ágúst. Hann sagði að ræningjarnir hefðu verið með skotvopn og lögregluskilríki.

Annað kom á daginn, því myndefni úr öryggismyndavél sýndi að fjórmenningarnir hafi átt í samskiptum við öryggisverði eftir að þeir höfðu gerst sekir um að valda skemmdum á salerni á bensínstöð.

Lochte yfirgaf Brasilíu fljótlega eftir atvikið. Þremur dögum seinna voru þeir Conger og Bentz stöðvaðir á flugvelli skömmu fyrir brottför til Bandaríkjanna. Yfirvöld í Brasilíu yfirheyrðu þá vegna málsins. Þeir fengu í framhaldinu að yfirgefa landið. Sömu sögu er að segja um Feigen eftir vitnisburð hans. Feigen, sem í upphafi stóð með Lochte, hefur ekki verið ákærður. 

Lochte hefur viðurkennt að hann hafi verið undir áhrifum áfengis og að þetta væri afleiðing hegðunar hans. Ekki er hægt að sjá það á upptökunni hvort skotvopni hafi verið beint að sundköppunum.

Samkvæmt brasilískum lögum varðar það allt að 18 mánaða fangelsi að ljúga í lögregluskýrslu. Réttarhöld gætu farið fram að Lochte fjarstöddum snúi hann ekki aftur til Brasilíu vegna málsins. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert