Óendurgoldin ást ekki hryðjuverk

AFP

Frakki hefur verið ákærður fyrir að hafa stungið unga breska konu til bana á farfuglaheimili í Ástralíu. Ýmislegt bendir til þess að maðurinn hafi verið blindaður af ást til konunnar án þess að ástin væri endurgoldin. Ekkert bendir til að um hryðjuverkaárás hafi verið að ræða þrátt fyrir að hann hafi kallað „Allahu akbar“ (Guð er mikill) á arabísku er hann stakk konuna.

Frakkinn, Smail Ayad, er 29 ára gamall, en hann er ákærður fyrir að hafa myrt Mia Ayliffe-Chung, 21 árs, með því að stinga hana ítrekað með hníf á farfuglaheimili í bænum Home Hill, afskekktum bæ í Queensland.

Þrítugur Breti er í lífshættu eftir árásina en Ayad stakk hann einnig og er Bretinn með alvarlega áverka á höfði. Jafnframt særði Ayad 46 ára gamlan mann á farfuglaheimilinu en hann er ekki alvarlega slasaður. 

Ayad verður leiddur fyrir dómara á föstudag og er ákærður fyrir morð, tilraun til manndráps á tveimur manneskjum, dýraníð – en hann drap hund á farfuglaheimilinu – og alvarlega líkamsrás og er sá liður ákærunnar í tólf liðum.

Frakkinn er einnig sakaður um að hafa veitt andspyrnu þegar lögregla sótti hann á sjúkrahús í gær þar sem hann var í geðrannsókn og færði í fangaklefa. Endaði með því að lögregla beitti rafbyssu og piparúða á hann.

Lögregla segir að þrátt fyrir að hafa sagt „Allahu akbar“ bæði þegar hann framdi árásina og eins þegar lögregla handtók hann þá bendi ekkert til þess að hann sé öfgasinni. Ekki sé hægt að útiloka það en það er nákvæmlega ekkert sem bendir til þess, segir lögreglan.

Að sögn lögreglu er verið að rannsaka hvort Ayad hafi verið sjúklega hrifinn af Ayliffe-Chung þrátt fyrir að ekkert bendi til þess að hún hafi haft nokkurn áhuga á honum. Einhverjar breytingar urðu á hegðun Ayad á þriðjudagskvöldið og er talið að þær megi rekja til kannabisneyslu. 

Frétt mbl.is: Ung kona lést í hnífaárás

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert