267 hafa fundist látnir

Alls hafa 267 fundist látnir á skjálftasvæðunum á Ítalíu, samkvæmt nýjum upplýsingum frá almannavörnum ítalska ríkisins. 367 slösuðust það alvarlega að þeir þyrftu að fara á sjúkrahús. Lýst var yfir neyðarástandi á jarðskjálftasvæðinu og hefur forsætisráðherra Ítalíu, Matteo Renzi, sagt að 50 milljónir evra verði settar í neyðaraðstoð.

Framkvæmdastjóri almannavarna, Immacolata Postiglione, segir að enginn hafi fundist á lífi í nótt en björgunarsveitarfólk var að störfum í alla nótt. Áfram verður leitað í rústunum í dag.

Renzi segir að gerð verði ný jarðskjálftavarnaáætlun á Ítalíu enda þykir með ólíkindum að aðeins sjö árum eftir skjálfta á svipuðum slóðum sem kostaði yfir 300 manns lífið sé ekki búið að bæta húsakost þannig að minni hætta sé á að hús hrynji þegar jarðskjálftar ríða yfir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert