Fyrsta bænastundin í fyrstu kvenmoskunni

Moskan er starfrækt í íbúð við verslunargötu í Kaupmannahöfn.
Moskan er starfrækt í íbúð við verslunargötu í Kaupmannahöfn. mbl.is/Ómar Óskarsson

Fyrsta bænastund fyrstu skandinavísku kvenmoskunnar fór fram í Kaupmannahöfn í dag. Um er að ræða feminískt verkefni, sem stofnandi moskunnar vonast til að muni hjálpa til við að draga úr fordómum gegn íslam.

Athöfn Mosku Mariam fór fram í íbúð við verslunargötu borgarinnar, en moskan hefur verið starfrækt í sex mánuði. Meira en 60 konur voru viðstaddar, um helmingur þeirra múslimar, til að hlýða á imaminn Saliha Marie Fetteh.

Það var stofnandi moskunnar, Sherin Khankan, sem opnaði athöfnina en hún stefnir sjálf á að verða imam. Hún sagði að upphaflega hefði hún viljað opna mosku þar sem kvenkyns imamar héldu athafnir fyrir bæði kyn en hefði síðar skipt um skoðun.

„Það kom í ljós að meirihluti samfélagsins vildi föstudagsbænastund fyrir konur einvörðungu,“ sagði Khankan, sem fæddist í Danmörku. Faðir hennar er sýrlenskur og móðir hennar finnsk.

„Í dag er ég mjög ánægð með ákvörðun mína, því þegar þú reynir að koma á breytingum er afar mikilvægt að gera það skynsamlega og smám saman.“

Þingmaðurinn Naser Khader hefur gagnrýnt ákvörðun Khankan og segir ekki ásættanlegt að í Danmörku, þar sem jafnrétti þykir ríkja milli kynjanna, sé konum ekki heimilað að fara fyrir bænastundum fyrir bæði kyn.

Fimm giftingar hafa verið framkvæmdar í moskunni, sem hefur gefið út eigið vígsluvottorð. Samkvæmt því er konum heimilt að skilja, fjölkvæni er bannað, menn og konur eiga jafnan rétt til barnanna ef til skilnaðar kemur og hjónabandið er ógilt ef maðurinn eða konan gerast sek um andlegt eða líkamlegt ofbeldi innan sambandsins.

Khankan segir markmiðið með moskunni að berjast gegn fordómum gegn íslam með því að sýna að konur geti átt frumkvæði. Áþekk verkefni eru starfrækt í nokkrum öðrum löndum, m.a. í Bandaríkjunum þar sem The Women's Mosque of America opnaði í Los Angeles í fyrra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert