Gleymir aldrei „djöfullegum drununum“

Björungarmenn bera lík sem fannst í rústum bæjarins Pescara del …
Björungarmenn bera lík sem fannst í rústum bæjarins Pescara del Tronto. AFP

Ewu Szwajak og eiginmanni hennar tókst að forða sér út um svalir með fjögurra ára gamlan son sinn þegar jarðskjálftinn reið yfir Amatrice á Ítalíu aðfaranótt miðvikudags. „Ég mun muna þennan hávaða til æviloka, djöfullegar drunur veggja á hreyfingu,“ segir Szwajak sem er pólsk.

Björgunarsveitarmenn leita enn að eftirlifendum jarðskjálftans í húsarústum en vonir manna um að fleiri finnist fara dvínandi. Á þriðja hundruð manns hefur verið bjargað en 267 hafa fundist látnir fram að þessu. Ótrúlegar sögur hafa komið fram um fólk sem hefur verið bjargað.

Maria Gianni í Amatrice sagði AP-fréttastofunni frá því að hún hafi borið fyrir sig kodda til þess að bjarga sér undan braki hússins þegar það hrundi í skjálftanum.

„Öðrum megin við mig féll allur veggurinn en hann lenti ekki á mér. Hinum megin féll veggurinn sömuleiðis og lenti ekki á mér en datt rétt hjá mér, alveg upp við mig en sem betur fer ekki á mig. Síðan hrundi allt loftið yfir mig. Mér tókst að setja kodda yfir höfuðið og ég fékk sem betur fer ekkert í mig,“ segir hún.

Þeir sem hafa leitað í rústunum hafa hætt lífi sínu …
Þeir sem hafa leitað í rústunum hafa hætt lífi sínu því hætta er á að rústirnar renni af stað aftur í eftirskjálftum sem hafa riðið yfir síðustu daga. AFP

Varði barnabörnin með líkama sínum

Í bænum Pescara del Tronto, sem þurrkaðist svo gott sem út í jarðskjálftanum, sluppu systkinin Leone sem er sex ára og bróðir hennar Samuel sem er fjögurra ára þegar amma þeirra rak þau undir rúm og varði þau svo með líkama sínum. Konan hlaut fjölda beinbrota og er nú á sjúkrahúsi, að því er ítalska fréttastofan Ansa.it greinir frá.

Önnur kona lýsir því við AFP-fréttastofuna hvernig hún slapp naumlega undan því að festast í rústum hússins síns í smábænum Illica.

„Mér tókst að komast út á lífi því ég fann holu í veggnum sem mér tókst að stækka. Ég komst út á þak og gekk yfir það þar til ég kom að verönd og tókst að komast niður þar,“ segir Elisa.

Þeir sem hafa leitað í rústum bæjanna þriggja þar sem eyðileggingin var mest eru sagðir hafa hætt lífi sínu í björgunaraðgerðunum. Fjöldi eftirskjálfta hefur riðið yfir í kjölfar stóra skjálftans á miðvikudag. Sumir bæjanna eru byggðir í brattri hlíð og þegar húsin hrundu runnu þau niður og ofan á hvert annað. Í eftirskjálftunum hefðu rústirnar hæglega getað runnið af stað aftur og grafið björgunarfólkið.

Bugaðir íbúar Pescara del Tronto sitja við bráðabirgðatjaldbúðir sem settar …
Bugaðir íbúar Pescara del Tronto sitja við bráðabirgðatjaldbúðir sem settar hafa verið upp. AFP

Marco Pelatroni er einn þeirra sem hafa tekið þátt í björgunaraðgerðunum. Hann býr í dalnum fyrir neðan Pescara del Tronto og hrökk upp af værum blundi þegar jarðskjálftinn reið yfir.

„Ég sá móður mína öskrandi og föður minn sömuleiðis. Eftir tvær mínútur yfirgáfum við húsið og fórum upp í bíl eins og allir í borginni okkar. Við keyrðum í stóran garð þar sem engar byggingar eru og dvöldum þar yfir nótt,“ segir Pelatroni við fréttaritara breska ríkisútvarpsins BBC.

Marco og félagar hans úr rúgbíliði á svæðinu fóru strax til Pescara del Tronto til að hjálpa til við leitina að fólki.

„Það verður kraftaverk ef við finnum einhvern lifandi,“ sagði hann þegar hann leit yfir eyðilegginguna í bænum.

Frétt BBC af eyðileggingunni í Pescara del Tronto

Frétt BBC um fólk sem hefur verið bjargað úr rústunum

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert