Kosningastjóri gæti brotið kosningalög

Donald Trump réði Stephen Bannon framkvæmdastjóra framboðs síns í síðustu …
Donald Trump réði Stephen Bannon framkvæmdastjóra framboðs síns í síðustu viku. AFP

Nýr framkvæmdastjóri forsetaframboðs Donalds Trumps er á kjörskrá í Flórída þrátt fyrir að hann búi ekki þar og virðist að um brot á kosningalögum sé að ræða. Eftirgrennslan The Guardian leiðir í ljós að húsið þar sem framkvæmdastjórinn er skráður til heimilis hafi staðið autt lengi.

Flórída verður að líkindum lykilríki í forsetakosningunum í nóvember og gæti ráðið miklu í baráttu Trumps og Hillary Clinton um embætti forseta Bandaríkjanna. Rannsóknarvinna The Guardian leiðir í ljós að Stephen Bannon, stjórnarformaður íhaldssama vefritsins Breitbart sem Trump réði sem framkvæmdastjóra framboðs síns í síðustu viku, sé á kjörskrá þar þrátt fyrir að hann sé ekki búsettur í ríkinu.

Blaðið vitnar í kosningalög í Flórída þar sem segir að þeir sem skrá sig á kjörskrá þar þurfi að vera búsettir í ríkinu. Allt að fimm ára fangelsisvist liggur við því að gefa upp rangar upplýsingar til kjörskrár.

Þá hefur The Guardian eftir heimildarmönnum sínum að húsið hafi staðið autt frá því að Diane Clohesy, fyrrverandi eiginkona Bannon, flutti þaðan út fyrr á þessu ári. Þau hafa verið skilin í sjö ár en Clohesy er sjálf sögð með óvenjulega skráningu á kjörskrá, sömuleiðis í Flórída.

Þá herma heimildir blaðsins að Bannon hafi aldrei búið sjálfur í húsinu. Áður hafi hann leigt annað hús á Flórída fyrir Clohesy og hafi þá verið kjörskrá þar. Hvorki Bannon né Clohesy vildu tjá sig við The Guardian um málið. Framboð Trumps vildi engum spurningum svara um málið en sagði að Bannon hefði flutt „annað á Flórída“.

Margir sækja í skattleysið á Flórída

Í umfjöllun The Guardian kemur fram að Bannon hafi verið á kjörskrá í Kaliforníu frá 9. áratug síðustu aldar til ársins 2014. Samkvæmt opinberum gögnum á hann engar eignir á Flórída og fyrir skömmu hafi komið fram að hann sé búsettur í Orange-sýslu í Kaliforníu þar sem opinber skjöl sýna að hann á hús.

Þá kemur fram að búseta á Flórída laði oft fólk frá öðrum ríkjum að því þar þurfa íbúar ekki að greiða tekjuskatt. Með því að skrá sig til heimilis á Flórída geti fólk komist undan því að greiða tekjuskatt af fjármagnstekjum, vaxtatekjum og lífeyri. Lögmenn eru sagðir ráðleggja umbjóðendum sínum að það hjálpi til að skrá sig á kjörskrá í ríkinu.

Uppljóstranir The Guardian um skráningu Bannon eru ekki síst athyglisverðar í ljósi þess að Breitbart-fréttasíðan hefur um árabil haldið því fram að víðtæk kosningasvik eigi sér stað hjá minnihlutahópum og á svæðum þar sem þeir sem aðhyllast Demókrataflokkinn eru í meirihluta.

Trump hefur endurómað þau sjónarmið í kosningabaráttunni og ýjaði að því að brögð yrðu mögulega höfð í tafli í kosningnunum til að koma í veg fyrir að hann hafi sigur.

Bannon var ráðinn til framboðsins í kjölfar þess að Paul Manafort steig til hliðar sem kosningastjóri Trump. Hann var sakaður um að óeðlileg tengsl við bandamenn Rússa í Úkraínu.

Umfjöllun The Guardian um Stephen Bannon

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert