Mágur vígamanns ákærður

Mourad Hamyd var í dag handtekinn og ákærður fyrir að …
Mourad Hamyd var í dag handtekinn og ákærður fyrir að reyna að ganga í raðir vígamanna Ríkis íslams í Sýrlandi. AFP

Mágur eins hryðjuverkamannanna, sem gerðu árás á skrifstofur franska blaðsins Charlie Hebdo í París í fyrra, hefur nú verið ákærður grunaður um að vera tengdur hryðjuverkasamtökum.  

Maðurinn, hinn 20 ára gamli Mourad Hamyd, var í dag handtekinn og ákærður fyrir að reyna að ganga í raðir vígamanna Ríkis íslams í Sýrlandi. Hann er í haldi lögreglu. 

Systir Hamyds, Izzana, var gift Cherif Kouachi sem gerði árásina í París í janúar í fyrra ásamt bróður sínum Said Kouachi. Bræðurnir voru felldir af lögreglu tveimur dögum eftir árásina. 

Cherif Kouachi, annar vígamannanna sem gerðu árás á skrifstofur Charlie …
Cherif Kouachi, annar vígamannanna sem gerðu árás á skrifstofur Charlie Hebdo í fyrra. AFP

Hamyd var á föstudag sendur til baka til Frakklands frá Búlgaríu, en þar hafði hann reynt að komast yfir landamærin til Tyrklands. Hann var í kjölfarið handtekinn og óskuðu frönsk yfirvöld eftir því í lok júlí að hann yrði framseldur. Var hann sagður vera að undirbúa hryðjuverkaárás.

Hamyd sagði búlgörskum yfirvöldum hins vegar að hann væri ferðamaður sem hefði áhuga á því að fara yfir til Tyrklands, og hefði enga tengingu við Ríki íslams. Frönsk yfirvöld sögðu hann þó hafa farið sömu leið og margir öfgamenn sem vilji komast í raðir hryðjuverkasamtakanna, þegar hann fór með lest í gegnum Austurríki, Ungverjaland, Serbíu og Búlgaríu. 

Hamyd var handtekinn í tengslum við árásirnar á skrifstofur Charlie Hebdo í janúar í fyrra, þar sem 12 voru myrtir, en síðar látinn laus. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert