Aðgangseyrir rennur til uppbyggingar

Slökkviliðsmenn við rústir húss í bænum Amatrice.
Slökkviliðsmenn við rústir húss í bænum Amatrice. AFP

Allur aðgangseyrir sem safnast á söfnum á Ítalíu í dag mun renna til hjálparstarfa og uppbyggingar eftir jarðskjálftann á miðvikudag. 291 lést í jarðskjálftanum sem var 6,4 að stærð. 

Yfirvöld í landinu hafa hvatt fólk til að fara á söfn í dag til að safna peningum fyrir fórnarlömb skjálftans. Frá þessu er greint á vef breska ríkisútvarpsins.

Margar kirkjur og aðrar byggingar frá miðöldum gjöreyðilögðust þegar jarðskjálftinn reið yfir, en bærinn Amatrice kom verst út úr skjálftanum. Þar létust 235 íbúar, en bæjarstjóri Amatrice segist vilja endurbyggja bæinn í sitt upprunalega horf. Þá hrundi bærinn Pescara del Tronto einnig svo gott sem til grunna. 

Forseti og forsætisráðherra Ítalíu voru báðir viðstaddir jarðarför 35 fórnarlambanna í bænum Ascoli í gær. Matteo Renzi, forsætisráðherra landsins, gekk á milli syrgjenda og hughreysti þá að lokinni athöfninni. Giovanni D'Ercole, biskup í bænum, sagði í athöfninni að fólk yrði að vera nógu hugrakkt til að endurbyggja líf sitt og bæi á ný. 

Björgunarstarfsmenn leita í byggingu sem hrundi í jarðskjálftanum í bænum …
Björgunarstarfsmenn leita í byggingu sem hrundi í jarðskjálftanum í bænum Arquata del Tronto á Ítalíu. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert