Taldi heimsstyrjöldina enn í gangi 1974

Hiroo Onoda þegar hann gafst upp, þegar hann var í …
Hiroo Onoda þegar hann gafst upp, þegar hann var í japanska hernum á árum síðari heimsstyrjaldarinnar og á efri árum. Ljósmynd/War History Online

Hiroo Onoda var síðasti japanski hermaðurinn sem gafst upp eftir síðari heimsstyrjöldina. Það gerðist hins vegar talsvert eftir að stríðinu lauk eða 29 árum síðar. Fram að því hafði hann hafst við í frumskógunum á eyjunni Lubang á Filippseyjum og harðneitað að gefast upp.

Onoda var sendur til Lubang í lok desember 1944 þegar heimsstyrjöldin var enn í fullum gangi og Bandaríkjamenn og Japanir börðust um Filippseyjar. Japanir höfðu hertekið landið í kjölfar árásar þeirra á Perluhöfn á Hawaii þremur árum áður. Bandaríkjamenn sneru síðan aftur til landsins síðar í stríðinu. Enn var barst á Filippseyjum þegar kjarnorkusprengjunum var varpað á japönsku borgirnar Hiroshima og Nagasaki í ágúst 1945. Japan gafst upp í kjölfarið.

Verkefni liðsforingjans Onoda var að skipuleggja skæruliðahernað gegn Bandaríkjamönnum á bak við víglínuna. Fyrirskipanir yfirmanns hans, Yoshimi Taniguchi majórs, voru skýrar. Þó það tæki mörg ár yrði hann að halda áfram baráttunni. Sama hversu fáliðaður hann yrði. Uppgjöf væri ekki í boði undir neinum kringumstæðum. Fyrirskipunin var svohljóðandi:

„Þér er alfarið bannað að taka eigið líf. Það gæti tekið þrjú ár, það gæti tekið fimm, en hvað sem gerist munum við snúa aftur. Þangað til, á meðan einn af mönnum þínum er lífs, skaltu halda áfram að veita honum forystu. Þú kannt að þurfa að lifa á kókoshnetum. Ef svo verður skaltu lifa á kókoshnetum! Þú mátt ekki undir neinum kringumstæðum gefast upp að eigin frumkvæði.“

Töldu að verið væri að reyna að blekkja þá

Þegar líða fór á árið 1945 höfðu margir af japönsku hermönnunum á Lunbang fallið í átökum við Bandaríkjamenn og hersveitir Filippseyinga. Þeir sem eftir voru skiptu liði og héldu dýpra inn í frumskógana. Hópur Onoda samanstóð af þremur öðrum hermönnum; Yuichi Akatsu, Siochi Shimada, og Kinshichi Kozuka. Saman héldu þeir áfram að berjast.

Þeir beittu öllum þeim aðferðum til skæruhernaðar sem þeir kunnu og skömmtuðu matvæli með ströngum hætti til þess að lifa af. Í október 1945 rákust þeir á dreifibréf í frumskóginum sem varpað hafði verið úr flugvél þar sem tilkynnt var um uppgjöf Japans í stríðinu. Japanskir hermenn sem ekki höfðu enn gert það voru hvattir til þess að gefast upp.

Onoda og félagar hans ræddu innihalds dreifibréfsins en komust að þeirri niðurstöðu að einungis væri verið að reyna að blekkja þá til þess að gefast upp. Auk þess hafði verið skotið á þá skömmu áður og töldu þeir það til marks um að stríðinu gæti ekki verið lokið. Þess utan þótti þeim sá möguleiki einfaldlega nær óhugsandi að Japan hefði gefist upp.

Þeir félagar héldu því áfram sínu striki. Fleiri tilraunir voru gerðar á næstu árum til þess að fá Onoda og hópinn hans og fleiri slíka til þess að gefast upp. Dreifibréfum var ítrekað varpað úr lofti ásamt japönskum dagblöðum. Japanskir erindrekar mættu jafnvel á staðinn og grátbáðu hermennina að gefast upp í gegnum hátalara. En allt var það til einskis.

Voru taldir hafa látið lífið fyrir löngu

Fimm árum eftir að Ododa og félagar hans höfðu haldið inn í frumskóginn, árið 1949, ákvað Akatsu að gefast upp. Hann hélt því hins vegar leyndu fyrir hinum. Eftir að hafa ráfað um frumskóginn í sex mánuði gafst hann upp fyrir manni sem hann taldi vera óvinahermann. Hinir óttuðust að Akatsu hefði gefið upp staðsetningu þeirra og fóru því lengra inn í frumskóginn.

Enn fækkaði í hópum fimm árum síðar þegar Shimada lést í skotbardaga. Onoda og Kozuka voru þá tveir eftir og héldu áfram að gera skæruárásir þegar þeir sáu færi á því sannfærðir um að stríðið væri enn í fullum gangi og Japan myndi þá og þegar senda hersveitir til þess að taka eyjuna aftur. Þar yrðu þeir í lykilhlutverki við að kenna nýliðunum skæruhernað.

Kazuka lét lífið í október 1972 í átökum við filippeysku lögregluna eftir að hafa farið huldu höfði í frumskóginum ásamt Onoda í 27 ár. Japönsk stjórnvöld voru steinhissa þegar þau sáu myndir af líki Kazuka enda töldu þau hann löngu látinn í frumskógunum. Þeim varð þá hugsað til Onoda sem einnig var löngu talinn af. Hann gæti hugsanlega enn verið á lífi.
 
Leitarflokkar voru sendir til þess að finna Onoda en þeir gripu í tómt. Japönskum háskólanema, Nario Suzuki, tókst hins vegar að finna Onoda árið 1974 og ræða við hann. Onoda þvertók fyrir að gefast upp enda hefði yfirmaður hans fyrirskipað honum að halda baráttunni áfram. Hann gæti því ekki gefist upp fyrr en yfirmaður hans skipaði honum það.

Var veitt sakaruppgjöf af forseta Filippseyja

Taniguchi majór, sem gefið hafði Onoda fyrirskipunina árið 1944, var þá á eftirlaunum. Hann var sendur á staðinn til þess sannfæra Onoda um að stríðinu væri lokið og skipa honum að gefast upp. Onoda hafði verið 22 ára þegar hann var sendur Lubang-eyjar. Hann var 52 ára þegar hann gafst loks upp og þrammaði út úr frumskóginum í fullum herklæðum.

Eins og gefur að skilja var það mikið áfall fyrir Onoda að komast loks að hinu sanna eins og hann lýsti um það leyti þegar hann gafst upp. Lauk stríðinu virkilega fyrir 29 árum? Hafði hann virkilega haldið til í frumskóginum í allan þann tíma til einskis. Höfðu Shimada og Kazuka þá látið lífið fyrir ekki neitt? Hefði kannski verið betra ef hann hefði fallið líka?

Forseti Filippseyja, Ferdinand Marcos, tók við uppgjöf Onodas og veitti honum ennfremur sakaruppgjöf vegna skæruhernaðar hans og félaga hans þar sem gerðir þeirra hefðu átt sér stað í ljósi vanþekkingar þeirra á því hverning heimsmáin hefðu þróast. Þeir höfðu drepið 30 Filippseyinga og sært yfir eitt hundrað. Fyrir utan eignatjón.

Heimkoma Onoda til Japans vakti mikla athygli. Skorað var á hann að bjóða sig fram til þings en hann hafði ekki áhuga á því. Hann hafnaði ennfremur hárri fjárhæð frá japanska ríkinu sem hugsuð var sem greiðsla aftur í tímann fyrir herþjónustu hans. Onoda kvæntist og bjó um tíma í Brasilíu en flutti aftur til Japans árið 1984.  Hann lést úr hjartaáfalli 2014.

Meðal annars byggt á umfjöllun War History Online.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert