Trump sagður tala máli Kú Klúx Klan

Tim Kaine, varaforsetaefni Hillary Clinton.
Tim Kaine, varaforsetaefni Hillary Clinton. AFP

Varaforsetaefni Demókrataflokksins, Tim Kaine, fullyrðir að Donald Trump berjist fyrir gildum Kú Klúx Klan sem séu andstæð gildum Bandaríkjanna. Repúblikanar segja ummæli Kaine um Trump fyrirlitlegar lygar. Hillary Clinton hefur sjálf sagt Trump byggja framboð sitt á fordómum og vænisýki.

Á fundi með háskólanemendum á Flórída vísaði Kaine til gagnrýni Clinton á Trump þess efnis að hann nyti stuðnings manna eins og Davids Duke, eins fyrrverandi leiðtoga Kú Klúx Klan. Þeir segi að Trump sé frambjóðandi þeirra því að hann berjist fyrir gildum þeirra.

„Gildi Kú Klúx Klan, gildi Davids Duke, gildi Donalds Trump eru ekki bandarísk gildi, þau eru ekki gildin okkar. Við verðum að gera allt sem við getum til að berjast á móti því og sigra [...],“ sagði Kaine.

Talsmenn Trump fordæmdu ummæli Kaine og kölluðu þau andstyggileg. Þau lýstu lygum og bölsýni Clinton og Kaine gegn voninni og bjartsýninni sem Trump og varaforsetaefni hans Mike Pence boðuðu.

Trump sætti harðri gagnrýni þegar hann frábað sér ekki stuðning Duke fyrr á þessu ári. Framboð Clinton hefur reynt að tengja Trump við Kú Klúx Klan í nýlegum auglýsingum. Trump hefur á móti sakað Clinton um að reyna að koma óorði á stuðningsmenn sína.

Frétt CNN 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert