Brexit hefur ekki haft áhrif á Norðmenn

Norden.org

Tveir af hverjum þremur Norðmönnum vilja ekki ganga í Evrópusambandið samkvæmt niðurstöðum nýrrar skoðanakönnunar sem fyrirtækið MMI gerði fyrir norska blaðið Dagbladet. Sextán prósent vilja í sambandið en 18% taka ekki afstöðu með eða á móti inngöngu.

Fram kemur á fréttavef norska dagblaðsins Nationen að ákvörðun breskra kjósenda að segja skilið við Evrópusambandið virðist ekki hafa haft mikil áhrif á afstöðu Norðmanna til málsins. Staðan sé hliðstæð og í síðustu sambærilegri skoðanakönnun í janúar. Andstaðan minnki um eitt prósentustig og stuðningur við inngöngu aukist um fjögur. Haft er eftir Øyvind Østerud, prófessor við Óslóarháskóla, að breytingin sé óveruleg.

„Einhverjir kunna að telja að Evrópusambandið eigi við erfiðleika að stríða og að við þurfum að ganga til liðs við það til þess að styrkja hópinn. Aðrir kunna að vera þeirrar skoðunar að sambandið sé að þróast í rangar áttir og því sé gott að við séum fyrir utan það. Hugsanlega koma þesi sjónarmið bæði fram en jafna síðan hvort annað út.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert