Kobbi kviðrista Kínverja handtekinn

Gao Chengyong, sem hefur gengist við morðunum, reyndist vera matvörukaupmaður …
Gao Chengyong, sem hefur gengist við morðunum, reyndist vera matvörukaupmaður á sextugsaldri og tveggja barna faðir. AFP

Kínverska lögreglan hefur handsamað mann sem grunaður er um að hafa myrt 11 konur í norðurhluta Kína. Kínverskri fjölmiðlar hafa kallað manninn hinn kínverska Kobba kviðristu og segja hann hafa verið handtekinn í matvöruverslun sem hann rekur með konu sinni.

Maðurinn heitir Gao Chengyong og er tveggja barna faðir á sextugsaldri. Hann hefur að sögn kínverska almannavarnaráðuneytisins gengist við morðunum sem voru framin á árabilinu 1988-2002.

Lögreglan segir fórnarlömb Gaos hafa verið ungar rauðklæddar konur. Gao fylgdi í humátt á eftir konunum, sem flestar bjuggu einar og réðist síðan á þær, nauðgaði þeim og myrti þegar þær voru komnar heim.  Fórnarlömb sín skar hann oft á háls og afskræmdi líkama þeirra.

Yngsta fórnarlamb Gaos var aðeins átta ára gömul stúlka og árið 2004 lýsti kínverska lögreglan gerandanum sem manni sem væri „kynferðislega brenglaður og hataði konur.“ Hann væri einfari, ófélagslyndur og þolinmóður.

Fréttavefur BBC rifjar upp að á þeim tíma hafi kínverska lögreglan heitið verðlaunum að andvirði 3,5 milljónum króna fyrir upplýsingar sem gætu leitt til handtöku morðingjans. En það var ekki fyrr en 2004 sem morðin 11 voru talin verk sama einstaklings.

Engar nýjar vísbendingar fundust þó fyrr en í ár, þegar DNA-sýni var tekið úr frænda Gaos, sem hafði verið handtekin fyrir minni háttar brot. En DNA-sýnið leiddi í ljós að hann væri væntanlega skyldur morðingjanum.

Gao er talinn hafa framið fyrsta morðið í maí 1988, þegar sonur hans fæddist, en engin ástæða hefur enn verið gefin fyrir því hvers vegna morðunum linnti árið 2002.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert