Fölsuðu myndir af sér á toppi Everest

Everest.
Everest. AFP

Yfirvöld í Nepal hafa sett indverskt par í fjallgöngubann fyrir að falsa myndir af sér á toppi Everest. Dinesh og Tarakeshwari Rathod, sem eru bæði í lögreglunni, segjast hafa farið á topp Everest 23. maí en ferðafélagar þeirra úr leiðangrinum efast um að þau greini rétt frá og segja að átt hafi verið myndirnar sem þau birtu af tindinum.

Ferðamálayfirvöld í Nepal hafa rannsakað málið og leiddi rannsóknin í ljós að þau fölsuðu myndir af sér á toppnum. Með því að banna hjónunum að klífa fjöll í Nepal í tíu ár vonast yfirvöld til þess að þau læri sína lexíu og um leið komi í veg fyrir að aðrir reyni að leika sama leik.

Greining á myndunum sýnir að þau hafi bætt sér inn á myndir sem annar indverskur fjallgöngumaður tók þegar hann stóð á toppi Everest. Ferðamálayfirvöld segja að reynt hafi verið að fá fólkið til þess að viðurkenna að þau hafi ekki farið á topp hæsta fjalls heims og því hafi verið ákveðið að setja myndirnar í sérfræðigreiningu. Nepalskir aðstoðarmenn þeirra (sjerpar) staðfesta einnig að parið hafi aldrei komist á toppinn. 

Margir þeirra sem hafa náð að komast á topp Everest (8.848 metra hæð) hafa hagnast á afrekinu meðal annars með frásögnum sínum á fundum og ráðstefnum. Alls hafa 456, þar af 250 útlendingar, komist á topp Everest í vor. Árin tvö á undan komst nánast enginn þangað vegna mannskæðra náttúruhamfara. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert