Sífellt færri sækja um hæli í Danmörku

AFP

Sífellt færri sækja um hæli í Danmörku og í síðustu viku voru umsóknirnar aðeins 36 talsins. Á sama tíma hefur hælisumsóknum fjölgað mjög á Íslandi. Danir hertu mjög eftirlit á landamærum sínum um áramót líkt og sænsk yfirvöld.

Undanfarnar sex vikur hafa færri en 100 sótt um hæli í Danmörku, sem er mikil fækkun frá síðasta ári. Í maí fengu stjórnvöld í Danmörku, Austurríki, Svíþjóð, Belgíu, Frakklandi og Þýskalandi heimild til þess að setja upp landamæraeftirlit innan Schengen-svæðisins og gildir heimildin til 12. nóvember. Ástæðan var sögð sú að fylgjast ætti nánar með flæði flóttafólks.

Inger Støjberg, ráðherra aðlögunarmála, segir að ákvörðun ríkisstjórnarinnar um aukið eftirlit hafi skilað tilætluðum árangri.

„Landamæraeftirlitið hefur gefið okkur betra tækifæri til þess að stýra öryggis- og eftirliti á landamærum og flæði flóttafólks. Landamæraeftirlitið hefur verið hjálplegt í því að halda uppi stillingu meðal almennings og tryggja innra öryggi í Danmörku,“ segir Støjberg í viðtali við Ritsau-fréttastofuna.

Danski þjóðarflokkurinn berst fyrir því að koma á varanlegu landamæraeftirliti en flokkurinn vill einnig að fólki verði synjað um hæli strax á landamærunum og það fái ekki að koma til landsins. 

Það sem af er ári hafa 4.700 sótt um hæli í Danmörku. Í fyrra sóttu rúmlega tuttugu þúsund um hæli í Danmörku og hafa aldrei jafn margir sótt þar um hæli áður.

<span>Vegna hins mikla fjölda fólks sem óskað hefur eftir alþjóðlegri vernd hér á landi á undanförnum mánuðum eru húsnæðis- og þjónustuúrræði Útlendingastofnunar og samstarfsaðila fyrir umsækjendur nú nálægt því að vera fullnýtt, segir á vef Útlendingastofnunar í síðustu viku. </span> <span>„Snörp aukning í umsóknum undanfarna daga hefur gert að verkum að nauðsynlegt er að leita frekari úrræða og aðstöðu hvað þetta varðar. Allt kapp er lagt á að tryggja fullnægjandi aðstæður í því húsnæði sem fyrir er og að þjónusta sé viðunandi,“ segir á vef stofnunarinnar.</span>

Á fyrstu sjö mánuðum ársins sóttu 316 manns um alþjóðlega vernd hér á landi og það sem af er ágústmánuði hafa 45 sótt um, þar af um 20 manns síðastliðna fimm daga.

<span> Árið 2016 er því þegar orðið metár hvað varðar fjölda umsókna um vernd, en allt árið í fyrra voru umsækjendur 354, er skrifað á vef Útlendingastofnunar 24. ágúst.</span>
AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert