Afdrifarík mistök 17 ára pilts

Fólk er beðið um að sýna skilríki á lestarstöð Kastrup-flugvallar.
Fólk er beðið um að sýna skilríki á lestarstöð Kastrup-flugvallar. AFP

Sautján ára piltur frá Erítreu, sem hefur dvalið í Svíþjóð síðan hann sótti um hæli þar fyrir rúmu ári, gerði afdrifarík mistök þegar hann fór um borð í ranga lest og endaði í Danmörku. Það þýðir að hann fær ekki að snúa aftur þangað sem hann hefur búið í Svíþjóð og þarf að sækja um hæli í Svíþjóð á nýjan leik. 

Robel Kidane ætlaði að taka lestina frá Osby til Vellinge í Suður-Svíþjóð en fór upp borð í ranga lest. Þegar hann uppgötvaði mistökin var hann kominn yfir landamæri Danmerkur, segir í frétt Sydsvenskan.

Þegar landamæraverðir á Kastrup-flugvelli í Kaupmannahöfn skoðuðu skilríki piltsins sem er hælisleitandi í Svíþjóð höfðu þeir samband við heimilið fyrir hælisleitendur þar sem hann dvaldi í Vellinge. Starfsmenn þar höfðu samband við lögmanninn sem sér um mál Kidane, Thorild Hamfors, og létu hann vita af mistökum piltsins.

Hann hafði samband við Útlendingastofnun sem hann hafði betur sleppt því þar sem stofnunin skráði að Kidane hefði yfirgefið Svíþjóð þar sem hann hefur búið undanfarið ár. Það þýðir að hann glatar rétti sínum á að búa á heimili fyrir hælisleitendur í Vellinge og ef honum tekst að snúa aftur til Svíþjóðar þarf hann að sækja um hæli á nýjan leik. Það getur þýtt árs bið á nýjan leik því von var á niðurstöðu Útlendingaeftirlitsins varðandi hælisumsókn piltsins á næstu dögum.

Með hertum útlendingalögum í Svíþjóð þýðir það að Robel Kidane getur ekki sótt um varanlegt hæli og aðeins vonast til þess að fá tímabundið hæli. Samkvæmt upplýsingum frá Rauða krossinum og Útlendingastofnun í Svíþjóð er málið ekkert einsdæmi eftir að landamæraeftirliti var komið á í Svíþjóð og Danmörku.

Mikael Kinning, sem starfar hjá Rauða krossinum í Vellinge, gagnrýnir skrifræðið hjá Útlendingastofnun í þessu máli. „Það er engin samúð með manneskjunni sem um ræðir: Unglingi sem gengur í skóla í Vellinge, á heimili þar sem honum líður vel og á stuðningsfjölskyldu sem þykir vænt um hann,“ segir Kinning í viðtali við Sydsvenskan en þar er einnig tekið viðtal við piltinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert