Aukin óhamingja meðal breskra stúlkna

AFP

Óhamingja  meðal breskra stúlkna hefur aukist og samkvæmt nýrri rannsókn eru 14% stúlkna á aldrinum 10 til 15 ára óhamingjusamar og 34% eru ósáttar við útlit sitt.

Þetta kemur fram í ársskýrslu  Children Society og fjallað er um skýrsluna á vef BBC. Tölurnar eru fyrir 2013-14 og hefur óhamingja stúlkna aukist verulega á fimm árum. Litlar breytingar hafa hins vegar orðið á hamingju drengja.

Samkvæmt rannsókninni telja stúlkurnar sig vera ljótar og eða einskins virði. Rannsakendur segja að ekki sé hægt að útskýra þessa auknu óhamingju ungra stúlkna með hormónum eða að um eðlilegan hlut sé að ræða. Þetta sé eitthvað sem verði að taka af alvöru og vinna með. 

Megan, 12 ára, segir í skýrslunni að einu skiptin sem hún sé ekki hamingjusöm er þegar fólk sé að gagnrýna hana eðasé með leiðindi við hana. Hún segir að fólk láti á samfélagsmiðlum eins og það sé fullkomið og það fari pínulítið í taugarnar á henni.

Natalia, 15 ára, segir að það skipti ekki máli hvert þú lítur - alls staðar séu myndir af frægu fólki sem sé svo fullkomið. Grannar, ljóshærðar með allt fullkomið, svo sem tennur, hár, augu og augabrúnir. Þetta er fáránlegt en mér finnst að ég eigi að líta svona út þrátt fyrir að ég viti að þetta er fölsun, að minnsta kosti í mörgum tilvikum.

Caitlyn, 12 ára, segist yfirleitt vera hamingjusöm en þegar hún skoði myndir af frægu fólki og sjálfsmyndir af vinum sínum sem líta fullkomlega út þá komi upp hugsanir um að hún geti aldrei litið svona út.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert