Skoða að endurræsa kjarnorkuver

Kvöldstemning í Manila.
Kvöldstemning í Manila. AFP

Stjórnvöld á Filippseyjum hafa til skoðunar að taka í notkun kjarnorkuver sem var byggt fyrir 32 árum en aldrei starfrækt af öryggisástæðum. Talsmaður forsetans Rodrigo Duterte segir málið í athugun vegna vaxandi orkuþarfar landsins, en hugmyndinni hefur verið harðlega mótmælt af umhverfisverndarsinnum.

Hið 620 megavatta kjarnorkuverk, sem var reist í Bataan í stjórnartíð einræðisherrans Ferdinand Marcos, hefur verið umdeilt í áratugi. Kostnaðurinn við byggingu þess nam 2,3 milljörðum Bandaríkjadollara.

„[Yfirvöld] eru að skoða alla möguleika í stöðunni varðandi endurnýjanlega og hagkvæma orku og það er í athugun að endurræsa Bataan-kjarnorkuverið,“ sagði Ernesto Abella.

Hann ítrekaði að Duterte og ríkisstjórn landsins þyrftu að samþykkja að taka verið í notkun, ef af yrði.

Kjarnorkuverið er staðsett 30 km vestur af Manila og var reist af Marcos vegna óstöðugleikans á olíumörkuðum á 8. áratug síðustu aldar. Eftir að Marcos var steypt af stóli árið 1986, neitaði ríkisstjórn forsetans Corazon Aquino hins vegar að taka það í gagnið.

Áhyggjur voru uppi, m.a. vegna þess að verið þótti standa of nærri misgengjum og virku eldfjalli, auk þess sem hamfarirnar í Chernobyl þóttu víti til varnaðar.

Aquilino Pimentel, forseti filippeyska þingsins, sagði á alþjóðlegri kjarnorkuráðstefnu í Manila á þriðjudag, að margir möguleikar fælust í kjarnorkunni. Hún gæti hins vegar verið varhugaverð, ekki síst í landi á borð við Filippseyjar, þar sem jarðskjálftar væru tíðir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert