Í upphafi var orðið svo kom blóðið

Frá Sýrlandi til Evrópu | 3. september 2016

Í upphafi var orðið svo kom blóðið

Stríðið í Sýrlandi hefur kostað hundruð þúsunda almennra borgara lífið og hrakið milljónir af heimilum sínum. Mest er rætt um voðaverk hryðjuverkasamtakanna Ríkis íslams en því má ekki gleyma að stríðið hófst í mars 2011 eða þremur árum áður en samtökin blönduðu sér í átökin. Upphafið að stríðinu má rekja til fimmtán drengja á aldrinum tíu til fimmtán ára sem tóku sig saman, upptendraðir af arabíska vorinu, og rituðu slagorð á vegg skóla síns í borginni Deraa. Voðaverkin sem unglingspiltarnir frömdu felast í þeim orðum sem þeir skrifuðu á vegg skólans: As-Shaab / Yoreed / Eskaat el nizam! – Þjóðin vill losna við valdhafanna!

Í upphafi var orðið svo kom blóðið

Frá Sýrlandi til Evrópu | 3. september 2016

AFP

Stríðið í Sýrlandi hefur kostað hundruð þúsunda almennra borgara lífið og hrakið milljónir af heimilum sínum. Mest er rætt um voðaverk hryðjuverkasamtakanna Ríkis íslams en því má ekki gleyma að stríðið hófst í mars 2011 eða þremur árum áður en samtökin blönduðu sér í átökin. Upphafið að stríðinu má rekja til fimmtán drengja á aldrinum tíu til fimmtán ára sem tóku sig saman, upptendraðir af arabíska vorinu, og rituðu slagorð á vegg skóla síns í borginni Deraa. Voðaverkin sem unglingspiltarnir frömdu felast í þeim orðum sem þeir skrifuðu á vegg skólans: As-Shaab / Yoreed / Eskaat el nizam! – Þjóðin vill losna við valdhafanna!

Stríðið í Sýrlandi hefur kostað hundruð þúsunda almennra borgara lífið og hrakið milljónir af heimilum sínum. Mest er rætt um voðaverk hryðjuverkasamtakanna Ríkis íslams en því má ekki gleyma að stríðið hófst í mars 2011 eða þremur árum áður en samtökin blönduðu sér í átökin. Upphafið að stríðinu má rekja til fimmtán drengja á aldrinum tíu til fimmtán ára sem tóku sig saman, upptendraðir af arabíska vorinu, og rituðu slagorð á vegg skóla síns í borginni Deraa. Voðaverkin sem unglingspiltarnir frömdu felast í þeim orðum sem þeir skrifuðu á vegg skólans: As-Shaab / Yoreed / Eskaat el nizam! – Þjóðin vill losna við valdhafanna!

Þetta barn fær aldrei að upplifa það að ganga í …
Þetta barn fær aldrei að upplifa það að ganga í skóla – eitthvað sem á að vera sjálfsagður réttur barna á 21. öldinni. AFP

Drengirnir voru allir handteknir og fluttir í fangelsi sem var undir stjórn Atef Najeeb, yfirmanns hersins og frænda forseta Sýrlands, Bashar al-Assad. Í yfirheyrsluherberginu voru drengirnir pyntaðir. Höggin voru látin dynja á þeim þar til þeim blæddi, fingurneglur þeirra rifnar af og þeir brenndir af sérsveitarmönnum sem starfa á vegum stjórnvalda í landinu.

Fjölskyldur drengjanna fengu þau svör þegar þær báðu um að börn þeirra yrðu látin laus að ef þær vildu drengi þá gætu þær sent mæður drengjanna í fangelsið þar sem þeim yrði nauðgað og kæmu heim þungaðar.

Fjölskyldurnar sættu sig ekki við þessi svör og mótmæltu við heimili héraðsstjórans í Deraa og sífellt bættist í hóp mótmælenda. Svörin sem mótmælendur fengu var kúlnahríð og hrottalegar misþyrmingar. Piltarnir voru látnir lausir úr haldi tveimur vikum síðar en ekkert lát varð á mótmælunum. Þau breiddust út og stigmögnuðust.

mbl

Saga sýrlensku uppreisnarinnar

Saga Deraa er saga sýrlensku uppreisnarinnar sem endaði með ófriðarbáli sem enginn endir virðist vera á. Eitt lítið atvik sem er svarað með hrottalegum aðgerðum af hálfu leynilögreglunnar. Ofbeldi sem magnaðist dag frá degi og mótmælendur fóru að svara með sama hætti. Því mótmælin snerust um svo miklu meira en piltana fimmtán. Þau snerust um þjóð sem bjó við takmarkað frelsi. Þjóð sem hafði fengið nóg af ofríki leiðtoga landsins. Þegar sýrlensk yfirvöld áttuðu sig á mistökunum sem þau höfðu gert var það orðið of seint því þrátt fyrir að boða launahækkanir og skattalækkanir héldu mótmælin áfram.

„Við viljum ekki brauðmola frá þér heldur viljum við sæmd,” hrópaði mannfjöldinn. Stytta af föður al-Assad, Hafez sem var forseti á undan syni sínum, var brotin niður og myndir af forsetanum voru rifnar og kveikt í þeim. Byltingin var hafin eftir áratug vonbrigða með Bashar al-Assad og störf hans á forsetastóli.

Undir stjórn Assads var lögð mikil áhersla á markaðshyggju og nýfrjálshyggju sem jók mjög ójöfnuð meðal landsmanna. Á sama tíma gekk Sýrland í gegnum niðursveiflu líkt og flest ríki heims og ekki bættu þurrkar í nokkur ár ástandið í landinu. Það þurfti því ekki mikið til þess að fá fleiri út á götur borga og bæja og taka þátt í mótmælum.

Daglegt líf í Sýrlandi í meira en fimm ár.
Daglegt líf í Sýrlandi í meira en fimm ár. AFP

Bash­ar al-Assad for­seti Sýr­lands er ala­víti sem er ein grein sjía-íslams. Áætlað er að um 87% íbúa Sýr­lands séu mús­lim­ar, um það bil 10% krist­inn­ar trú­ar og um 3% drús­ar (sem eiga ræt­ur að rekja til íslams en mús­lim­ar telja þá trú­vill­inga). Meðal mús­lim­anna eru súnnít­ar fjöl­menn­ast­ir, um 74% lands­manna, ala­vít­ar eru um það bil 12% íbú­anna og síj­ar um 5%. Alavítar ráða lögum og lofum í stjórnkerfi Assads. Trúarbrögð þeirra eru af meiði síja-múslíma og þeir sættu ofsóknum af hálfu súnníta þar til Hafez al-Assad komst til valda 1970. Hann barði niður andóf án miskunnar og sonur hans fer sömu leið.

Líkt og í Írak þegar Saddam Hussein var þar við völd þá er forseti Sýrlands annarrar trúar en meirihluti landsmanna. Hussein var súnníti en mikill meirihluti Íraka eru sjítar. Þetta hafði mikil áhrif á stöðu þeirra innan þjóðfélagsins, svo og nám og atvinnumöguleika. Eftir að Hussein var hrakinn frá völdum og tekinn af lífi hafa sjítar verið við völd í Írak. Nuri al-Maliki sem var for­sæt­is­ráðherra Íraks frá 2006 til ársins 2014 þegar hann lét loks und­an þrýstingi um að segja af sér en hann var sakaður um að hygla sjítum á kostnað á kostnað súnníta sem kynti meðal und­ir upp­gang Ríkis íslams, en liðsmenn samtakanna eru súnní-mús­límar líkt og liðsmenn al-Qaeda hryðjuverkasamtakanna.

Ætli þessi börn hafi nokkurn tíma fengið að njóta þeirra …
Ætli þessi börn hafi nokkurn tíma fengið að njóta þeirra sjálfsögðu mannréttinda að ganga í skóla? AFP

Friðaviðræður vænlegri til árangurs en vopnaburður

Blaðamennirnir Michael Weiss og Hassan Hassan gáfu nýverið út bók um Ríki íslams og grunninn að samtökunum. Bókin nefnist ISIS, Inside the army of terror. Þar er bent á ýmis líkindi með löndunum tveimur og uppgangi hryðjuverkasamtakanna al-Qaeda og Ríki íslams þar.

Guðmundur Hálfdanarson, prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands, tekur undir það og bendir einnig á að reynslan sýni okkur að það sé vænlegra til árangurs að leysa vandann með friðsamlegum hætti, ekki vopnaburði.

Innrásin í Afganistan og Írak í kjölfar hryðjuverkaárásanna á Bandaríkin 11. september 2001 eru dæmi um misheppnað inngrip og oftrú Vesturlandabúa á sjálfum sér. Með því að ráðast inn í landið töldu vestrænir þjóðarleiðtogar í einfeldni sinni að með því að taka einstaka þjóðhöfðingja af lífi sé hægt að koma á friði og allt falli í ljúfa löð. Yfirgefa síðan svæðin þegar kemur í ljós að það er engin lausn þrátt fyrir að viðkomandi þjóðarleiðtogi hafi verið algjör harðstjóri líkt og Saddam Hussein.

Þrátt fyrir að voðaverk Ríkis íslams séu skelfileg þá bera …
Þrátt fyrir að voðaverk Ríkis íslams séu skelfileg þá bera stjórnvöld í Sýrlandi ábyrgð á dauða mun fleiri almennra borgara í landinu. AFP

Morgunninn þegar þeir komu og sóttu okkur

Þegar Janine di Giovanni, blaðamaður Newsweek í Mið-Austurlöndum kom til höfuðborgar Sýrlands, Damaskus, í júní 2012, eða rúmu ári frá því mótmælin hófust í landinu, virtist lífið að mestu ganga sinn vanagang í borginni. En það var aðeins á yfirborðinu. Hvert sem litið var mátti sjá liðsmenn öryggislögreglunnar, Mukhabarat, fylgjast grant með hverju fótmáli íbúa. Fólk talaði saman í hálfum hljóðum og þegar þjónn færði fólki veitingar á kaffihúsum þagnaði það ósjálfrátt. Því þú veist aldrei hvar óvinurinn leynist. Giovanni lýsir lífinu í Sýrlandi næstu árin eða allt til ársins 2015 í bókinni The Morning They Came for Us sem og í fjölda greina í Newsweek og Vanity Fair. Fáir blaðamenn státa af sömu reynslu og hún þegar kemur að fréttaflutningi af stríðshrjáðum svæðum. Svæði sem hafa verið hennar starfsvettvangur áratugum saman.

Hvernig ná þjóðir sér almennt eftir slík stríð?
Hvernig ná þjóðir sér almennt eftir slík stríð? AFP

Í bókinni segir Nada, sem er ein þeirra sem tóku þátt í uppreisninni í Sýrlandi, Giovanni frá lífi sínu frá því uppreisnin hófst en hún var nemandi við háskólann í hafnarborginni Latakia, fimmtu stærstu borg Sýrlands 2011. Nada birti frásagnir á netinu af mótmælum og því hvernig stjórnarherinn svaraði með byssukúlum. Um miðjan júní 2012 eldsnemma að morgni komu þeir og sóttu hana. Hún lýsir fangavistinni og pyntingunum fyrir Giovanni.

„Þegar ég lá á gólfinu þá stóðu þeir yfir mér, spörkuðu í andlitið og létu höggin dynja á mér með höndum og fótum. Ég lá þarna á gólfinu og hélt utan um höfuðið á meðan höggin dundu á mér. Ég hugsaði: þeir nota líkama minn til þess að æfa sig í júdó. Allan tímann á meðan þeir börðu mig sögðu þeir: þú vilt frelsi. Hér er frelsið þitt. Í hvert skipti sem þeir sögðu frelsi þá spörkuðu þeir eða börðu mig fastar. En allt í einu breyttist andrúmslofið. Það fór að dimma og þeir sögðu að ef ég myndi ekki tala þá myndu þeir nauðga mér,” hefur Giovanni eftir Nödu í bókinni.

mbl

Nauðgun öflugt vopn

Nauðgun er eitt helsta vopnið á stríðshrjáðum svæðum og oft sterkara vopn heldur en annað ofbeldi. Átökin í Sýrlandi höfðu ekki varað lengi þegar fréttir fóru að berast af nauðgunum og skipti þar engu hvaða stríðandi fylkingu var um að ræða. Í viðtölum starfsmanna mannúðarsamtaka (NGO) við flóttafólk í byrjun árs 2012 kom fram að helsta ástæðan fyrir því að fjölskyldufólk flúði landið var óttinn við nauðganir og annað kynferðislegt ofbeldi. Þar fara liðsmenn Shabiba (vofurnar) þjóðvarðliðar sem eru alavítar líkt og Assad, fremstir í flokki.

Nauðganir eru ofbeldi sem ekki beindist aðeins að konum heldur einnig körlum og börnum af báðum kynjum. Í þjóðfélögum þar sem ætlast er til þess að konur séu óspjallaðar þegar þær ganga í hjónaband þá þýðir nauðgun ekki aðeins ofbeldi heldur einnig útskúfun. Því er sjálfsvíg eina lausnin í huga margra kvenna sem verða fyrir slíku ofbeldi. Lífi þeirra sé hvort sem er lokið og engin framtíð í boði. Liðsmenn Shabiha láta nauðganir oft ekki nægja því þeir eru einnig sakaðir um fjöldamorð, pyntingar og annað ofbeldi gagnvart stjórnarandstæðingum.

Í þjóðfélögum þar sem ætlast er til þess að konur …
Í þjóðfélögum þar sem ætlast er til þess að konur séu óspjallaðar þegar þær ganga í hjónaband þá þýðir nauðgun ekki aðeins ofbeldi heldur einnig útskúfun. AFP


Vegna átakanna í Sýrlandi þá eru 13,5 milljónir íbúa í brýnni þörf fyrir neyðaraðstoð. Rúmlega 4,8 milljónir hafa flúið land og 6,6 milljónir eru á hrakhólum innanlands, samkvæmt upplýsingum á vefnum Syrian refugees. Helmingur þeirra eru börn. Börn sem eru fórnarlömb stríðsátaka eru ekki bara í lífshættu vegna átaka heldur eiga þau á hættu að vera misnotuð, seld mansali, vannærð og svo mætti lengi telja. Skólaganga er eitthvað sem er aðeins til í minningu þeirra sem voru komin á skólaaldur þegar stríðið braust út. Hin hafa aldrei gengið í skóla. Flestir hafa flúið til nágrannaríkjanna, það er Tyrklands, Líbanon, Jórdaníu, Írak og Egyptalands, en aðeins rúmlega 10% sýrlenskra flóttamanna hafa flúið til Evrópu. Kannski eitthvað sem kemur fólki á óvart miðað við fréttaflutninginn af straumi flóttafólks til álfunnar líkt og fjallað verður um í annarri grein hér á mbl.is um komu flóttafólks til Evrópu.

Þrátt fyrir harkaleg, jafnvel hrottaleg, viðbrögð stjórnvalda við mótmælum stjórnarandstæðinga á götum úti 2011-2012 tókst ekki að berja uppreisnina niður og hún varð fljótt að borgarastyrjöld þar sem bæði hópar íslamista og ráðandi afla í einstökum héruðum landsins bættust í hópinn. Í upphafi andófsins réðst Assad gegn mótmælendum. Því næst sigaði hann hernum á þorp þar sem stjórnarandstæðingar voru við stjórn. Í stað þess að reyna að hafa uppi á andófsmönnum var öllum refsað. Stórskotalið létu sprengjum rigna yfir svæði súnníta og skriðdrekum var beitt gegn þeim. Flest eru fórnarlömbin eru almennir borgarar úr röðum súnníta. Á sama tíma færðust ofbeldisverk vopnaðra hreyfinga stjórnarandstæðinga í vöxt og öfgamenn í þeirra hópi urðu meira áberandi eftir því sem leið á borgarastyrjöldina. Þeirra markmið var ekki aðeins að koma Assad frá völdum heldur gera trúarlegar hreinsanir í landinu.

Meðal þeirra eru vígasamtökin Jabat al-Nusra (al-Nusra Front), sem heyrðu undir Al-Qaeda þangað til nýverið, en þau komu fram á sjónarsviðið snemma árs 2012 og höfðu það að markmiði að stofna íslamskt ríki og stjórna í krafti sjaríalaga. Í lok júlí tilkynntu samtökin að þau hefðu klofið sig frá al-Qaeda og að sögn leiðtoga al-Nusra Abu Mohammed al-Julani, hafa samtökin tekið upp nafnið Jabhat Fateh al-Sham og er tilgangur samtakanna enn sá sami, að ná yfirráðum í Sýrlandi.

Omran er fimm ára íbúi í Aleppo. Hann er á …
Omran er fimm ára íbúi í Aleppo. Hann er á sama aldri og stríðið sem geisar í heimalandi hans. AFP

Kalífadæmi verður til

Straumhvörf urðu í stríðinu í Sýrlandi árið 2014 þegar vígasamtökin Ríki íslams lýstu yfir stofnun kalífadæmis á yfirráðasvæðum sínum í Sýrlandi og Írak. Í tímariti samtakanna, Dabiq, kemur fram að stofnun kalífadæmisins sé afurð ellefu ára tímabils endurnýjunar eða allt frá innrás Bandaríkjamanna inn í Írak.

Leiðtogi samtakanna og kalífi, Abu Bakr al-Baghdadi, var áður leiðtogi forvera Ríkis íslams í Írak. Baghdadi fæddist í borginni Samarra árið 1971 og fékk nafnið Awwad Ibrahim Ali al-Badri al-Samarrai. Hann er kominn af klerkum úr röðum súnníta og ólst upp í Samarra en hóf ungur nám í Bagdad.

Baghdadi stundaði nám við Íslamska háskólann í Bagdad og stjórnaði bænum í moskunni sem hann sótti á námsárunum. Hann lauk doktorsprófi og sérhæfði sig í íslamskri menningu, sögu, sjaría-lögum og réttarheimspeki.

Abu Bakr al-Baghdadi.
Abu Bakr al-Baghdadi. AFP

Weiss og Hassan fjalla ítarlega um al-Baghdadi í bók sinni um vígasamtökin, Ríki íslams. Þar kemur fram að þrátt fyrir að lítið hafi farið fyrir honum hér áður, meðal annars vegna þess hversu hlédrægur hann var, þá var hann eindreginn stuðningsmaður harðlínu- og sjaría-laga. Við innrás Bandaríkjamanna fór ekki mikið fyrir þessum framtíðarleiðtoga vígasamtakanna eða eins og því er lýst í bókinni: Hann hlýtur að hafa verið hljóðlátur skipuleggjandi. Eða svo hljóðlátur að þegar hann var handtekinn í Írak snemma árs 2004 og haldið í Bucca-fangabúðunum þangað til hann var látinn laus í desember 2004 var hann ekki talinn hættulegur. Töldu forráðamenn fangelsisins að al-Baghdadi hefði jákvæð áhrif á aðra fanga og var hann fenginn til þess að leysa úr ágreiningi milli fanga.

Líkt og komið hefur í ljós á undanförnum árum voru fangelsin í Írak á þessum tíma gróðarstía harðlínu-íslamista og margir af hryðjuverkamönnum dagsins í dag komust í kynni við öfgamenn í fangelsum sem fengu óáreittir að koma áróðri sínum til skila. Ungir menn sem hefðu sennilega aldrei gengið til liðs við hryðjuverkasamtök að öðrum kosti urðu að auðmjúkum drápsvélum vígasveita.

Guðmundur Hálfdanarson, prófessor í sagnfræði.
Guðmundur Hálfdanarson, prófessor í sagnfræði. Ljósmynd/Háskóli Íslands

Þetta er í samræmi við þær upplýsingar sem liggja fyrir um vígamenn sem staðið hafa á bak við árásir í Evrópu undanfarin tvö ár. Í flestum tilvikum eru þetta ekki þrautþjálfaðir vígamenn frá Sýrlandi eða Írak heldur glæpamenn búsettir í löndum eins og Frakklandi, Belgíu og Þýskalandi.

Árásir sem kynda undir báli öfgahyggju

Guðmundur Hálfdanarson segir að hryðjuverkaárásir í Evrópu séu ekki stríð ekkert frekar en árásirnar á Bandaríkin 2001 þrátt fyrir að George W. Bush, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, hafi haldið því fram að þar væri um stríð að ræða. „Um leið og menn fara að líta á þetta sem stríð þá verða þessar árásir fyrst hættulegar og kynnt undir báli öfgahyggju. Stríð er á milli skilgreindra andstæðinga, þar sem annar sækist eftir sigri á hinum. Hryðjuverkin eru aftur framin af einstaklingum sem eru ekki endilega hlutar af skipulögðum hreyfingum, þótt þeir séu undir áhrifum frá þeim. Þótt við fellum einstaka hryðujuverkamenn vinnum við því ekki stríð, því það sem við er að etja er frekar hugmynd en hreyfing,“ segir Guðmundur.

Magnús Þorkell Bernharðsson, prófessor við Williams College.
Magnús Þorkell Bernharðsson, prófessor við Williams College. Háskóli Íslands/Kristinn Ingvarsson

Það hafa fáir einstaklingar farist í þessum árásum og það eru fámenn samtök sem standa á bak við árásirnar. Guðmundur telur að það verði að taka á árásunum eins og skipulögðum glæpum og reyna að uppræta þær þannig. Því ef glæpamönnunum tekst að sá fræjum ótta og hræðslu meðal almennings er voðinn vís. Ef ótti fer að grípa um sig óvíst hvað getur gerst því þá getur þetta breyst í stríð líkt og sagan sýnir okkur.

Magnús Þorkell Bernharðsson, prófessor í sögu Mið-Austurlanda við Williams College í Massachussets, segir að stoðir Ríkis íslams byggi mjög á fyrrverandi yfirmönnum úr her Sadd­ams Hussein í Írak. Herinn var lagður niður eftir innrás Bandaríkjanna og bandamanna þeirra árið 2003 og að sögn Magnúsar voru það afdrifarík mistök enda stóðu allt í einu þúsundir karla uppi án atvinnu og það eina sem þeir kunnu var að berjast. Í dag er þetta uppistaðan í vígasamtökunum Ríki íslams enda kunnu þessir menn að berjast. Ekki spillti fyrir að þeir komust yfir stóran hluta vopnabúrs íraska hersins og höfðu á brott með sér við starfslokin.

Allt frá upphafsdögum stríðsins í Sýrlandi hefur verið fjallað um miskunnarleysið gagnvart almennum borgurum og virðist þar engu skipta að alþjóðasamfélagið hafi reynt að mótmæla slíkri meðferð á saklausu fólki. Skiptir þar engu hvaða fylking á í hlut – ofbeldið er skelfilegt.

Í stríði er engum þyrmt - ekki heldur saklausum börnum.
Í stríði er engum þyrmt - ekki heldur saklausum börnum. AFP

Líkið óþekkjanlegt

Breska blaðið Guardian birti í fyrra viðtal við sýrlenskan ljósmyndara sem starfaði fyrir stjórnvöld í heimalandinu frá 2011 til 2013. Starfið fólst í því að mynda lík fanga sem höfðu verið pyntaðir í fangelsum landsins. Ljósmyndarinn gengur undir dulnefninu Caes­ar og honum tókst að smygla um 55 þúsund myndum úr landi. Myndum sem eru ein besta heimildin sem komið hefur fram varðandi þau voðaverk sem framin eru af stjórnvöldum í Sýrlandi. Myndirnar eru af líkum sem eru mörg svo illa farin að Caesar þekkti ekki vin sinn þegar hann myndaði líkið. Það var ekki fyrr en hann fór að skoða myndirnar betur í tölvu eftir á að hann sá að þetta var vinur hans. Sá var aðeins tvær vikur í haldi áður en hann var drepinn. Samt sem áður var líkið óþekkjanlegt.

Frönsku fréttamennirnir Olivier Joulie og Garance Le Caisne segja sögu ljósmyndarans og fylgjast með honum í Sýrlandi í heimildarmyndinni Syrie: témoins à charge. Lýsingar ljósmyndarans eru skelfilegar. „Ég hafði aldrei séð neitt þessu líkt áður. Fyrir uppreisnina voru fangar pyntaðir af stjórnvöldum til þess að afla upplýsinga; nú voru þeir pyntaðir til þess að drepa þá. Ég sá ummerki eftir logandi kerti og í eitt skipti sá ég hringlaga ummerki eftir hitaplötu – eins og þú notar til þess að hita te – í andliti og hári. Sumir voru með djúpa skurði, á öðrum höfðu augun verið krækt út, tennur þeirra brotnar. Þú gast séð ummerki eftir hýðingar með rafmagnsköplum sem þú notar til þess að gefa bíl start. Það voru sár full af greftri eins og þau hafi verið látin afskiptalaus í langan tíma og sýking komist í meinið. Stundum voru líkamarnir útataðir í nýju blóði og ljóst að viðkomandi hafði látist skömmu áður,“ segir Caesar sem er einn þeirra fjölmörgu Sýrlendinga sem ber sár á sálinni sem aldrei munu gróa.

AFP

Stjórnarherinn sem og Ríki íslams hafa orðið uppvís að notkun efnavopna og annarra vopna sem brjóta gegn alþjóðlegum sáttmálum. Geðþótti virðist ráða ríkjum þegar kemur að handtökum og pyntingum hjá stjórnvöldum sem og öfgahreyfingum eins og Ríki íslams og al-Nusra. Ofbeldi er beitt kerfisbundið gagnvart almennum borgurum og aftökur daglegt brauð.

Sekir um þjóðarmorð

Vígamenn Ríkis íslams eru sekir um þjóðarmorð og aðra glæpi gagnvart mannkyninu í Sýrlandi og Írak, samkvæmt rannsókn sem Sameinuðu þjóðirnar unnu og kynnt var í júní. Samkvæmt rannsóknarnefnd SÞ hafa vígasamtökin framið þjóðarmorð á jasítum og hvetur alþjóðasamfélagið til þess að bregðast harðar við til þess að koma í veg fyrir frekari fjöldamorð og að hryðjuverkasamtökin verði sótt til saka.

Samkvæmt frétt New York Times voru karlar og drengir úr hópi jasíta, sem neituðu að snúa til íslam, skotnir í höfuðið eða skornir á háls fyrir framan fjölskyldur sínar. Tugir fjöldagrafa hafa fundist á svæðum sem áður voru á valdi Ríkis íslams og er unnið að rannsókn á þeim. Konur og stúlkur úr hópi jasíta hafa hins vegar gengið kaupum og sölum á mörkuðum þar sem þær hafa verið seldar í kynlífsánauð. Gjaldið oft ekki annað ein skammbyssa.

Það getur varla vakið undrun að fólk reyni að flýja …
Það getur varla vakið undrun að fólk reyni að flýja aðstæður sem þessar. AFP

Í grein NYT frá því fyrir ári síðan lýsa jasíta stúlkur ofbeldinu sem þær urðu fyrir. Tólf ára gömul stúlka lýsir því hvernig vígamaðurinn hafi útskýrt það fyrir henni skömmu áður en hann nauðgaði henni að það sem hann væri að fara að gera væri ekki synd. Því stúlkan væri annarrar trúar en íslam. Þetta væri allt samkvæmt bókinni. Kóraninn gæfi honum ekki bara rétt á að nauðga henni heldur væri þar hvatt til þess að villutrúarkonum væri nauðgað. Eftir að hafa nauðgað stúlkunni kraup hann á kné við rúmið og bað. Síðan hélt hann áfram að nauðga henni og þannig koll af kolli, nauðgun og bæn, nauðgun og bæn.

„Ég sagði honum að hætta, að þetta væri sárt. Hann sagði mér að samkvæmt íslam mætti hann nauðga trúleysingja. Hann sagði að með því að nauðga mér kæmist hann nær Guði.“

Sýrlensk fjölskylda sem var bjargað frá Daraya í vikunni.
Sýrlensk fjölskylda sem var bjargað frá Daraya í vikunni. AFP

Ríki íslams boðar fasíska þjóðernishyggju

Magnús Þorkell segir að sú miðaldatrú sem Ríki íslams boðar sé afbrigði af wahabisma, hinni opinberu trú Sádi-Arabíu, sem stundum er einnig nefndur salafismi.

Ríki íslams sé ólíkt al-Qaeda að því leyti að Ríki íslams boði nýja fasíska þjóðernishyggju. Hreyfing sem er samstíga öðrum rasistum heimsins sem þar sem kynþáttafordómar eru í fyrirrúmi. Vígasamtök sem hika ekki við að fremja þjóðarmorð og eru trú sinni sannfæringu um að hreinsa ákveðna hópa af yfirborði jarðar. Hreyfing sem lítur niður á konur. Þær eigi að vera heima og annast sinn mann sem tekur þátt í bardögum til að verja sig og sína. Konur eigi helst að fá litla menntun enda karlinn henni æðri og það sé hann sem stjórni heimilinu. 

Að sögn Paulo Sérgio Pinheiro, formanns rannsóknarnefndar Sameinuðu þjóðanna, eru þjóðarmorð staðreynd og þau standi enn yfir. Ríki íslams hefur ráðist á alla jasíta sem þeir hafa náð á sitt vald með hryllilegum hætti. Það sé markmið samtakanna að þurrka jasíta út af yfirborði jarðar með morðum, kynlífsánauð, þrælahaldi, pyntingum, ómannúðlegri meðferð og nauðungarflutningum sem hafa haft alvarlega líkamlegar og andlegar afleiðingar í för með sér.

Þrátt fyrir fögur fyrirheit stjórnvalda í Sýrlandi, sem í fyrsta lagi hafa ekki viljað viðurkenna notkun efnavopna, en hafa heitið því að beita ekki slíkum vopnum í kjölfar þrýstings frá alþjóðasamfélaginu bendir margt til þess að þau séu enn í notkun og að meðal þess sem sé að finna í tunnusprengjum sem eru meðal eftirlætisvopna stjórnarhersins og er markviss beitt gegn almenningi í landinu.

AFP

Rannsókn á vegum Sameinuðu þjóðanna hefur leitt í ljós að hersveitir Assads Sýrlandsforseta hafa gert að minnsta kosti tvær eiturvopnaárásir á íbúa landsins og vígamenn Ríkis íslams hafa beitt sinnepsgasi í árás á bæ í Aleppo-héraði. Alls voru níu árásir á árunum 2014 og 2015 rannsakaðar. Ekki tókst að sannreyna hverjir illvirkjarnir eru í sex tilvikum sem hafa verið rannsökuð undanfarið ár.

Samkvæmt skýrslu SÞ var það stjórnarherinn sem varpaði efnavopnum á tvö þorp í Idlib-héraði, Talmenes 21. apríl 2014 og Sarmin 16. mars 2015. Eins hafi Ríki íslams notað sinnepsgas í árás sem gerð var á bæinn Marea í Aleppo-héraði 21. ágúst 2015.

Ríkisstjórn Assads hefur alltaf þvertekið fyrir að hafa beitt efnavopnum í stríðinu þrátt fyrir að ríki eins og Bandaríkin, Bretland og Frakkland hafi ítrekað bent á að stjórnarherinn hafi yfir þyrlum að ráða ólíkt öðrum stríðandi fylkingum í landinu. Rússar hafa tekið undir með Assad í þessu máli sem öðrum og haldið því fram að engar fullnægjandi sannanir séu fyrir því að stjórnarherinn hafi gert árásir á þessi þorp og fleiri.

Sendiherra Bandaríkjanna hjá SÞ, Samantha Power, segir að öryggisráð SÞ verði að grípa strax til aðgerða vegna þessa. Þeir sem beri ábyrgð á eiturefnaárásum verði dregnir til ábyrgðar. Talsmaður þjóðaröryggisráðs Bandaríkjanna, Ned Price, tekur í sama streng og segir að það sé ekki lengur hægt að skýla sér á bak við það að ekki séu nægjanlegar sannanir fyrir hendi. „Það er ómögulegt að neita því að stjórnvöld í Sýrlandi hafa ítrekað notað klórgas sem vopn gegn eigin þjóð.”

Forseti Sýrlands Bashar al-Assad
Forseti Sýrlands Bashar al-Assad AFP

Stundum er dauðinn betri kostur

Stundum er dauðinn betri kostur í hugum kvenna í Sýrlandi og Írak, illskárra en að vera seld í ánauð til ofbeldismanna sem fara betur með hunda sína en þær. Líkt og Roger Cohen, blaðamaður New York Times, segir í blaði Morgunblaðsins um síðustu áramót, Tímamót:

„Ég sé ekki hvernig hægt er að líta á Ríki íslams sem neitt annað en tilvistarógn við vestræn samfélög. Það er ástæðan fyrir tilvist þess. Samtökin standa fyrir eyðileggingu vestræns frelsis í öllum sínum myndum – frá kjörkassanum til svefnherbergisins – eins og það spratt upp úr upplýsingunni og höfnun þess að trúarbrögðin séu viðmið skipanar þjóðfélaga okkar. Þau vilja fara með mannkyn aftur til miðalda og uppræta hvern þann sem afneitar trúnni. Afstæðisskólinn, sem vill taka þá með þolinmæðinni, þarf í það minnsta að skýra á hverju sannfæring hans byggist um að vígamennirnir muni ekki nota landið á valdi þeirra og olíutekjurnar til að búa til gereyðingarvopn, þar á meðal efnavopn, eða gera hrikalega tölvuárás á vestrið. Talsmenn þessa viðhorfs þurfa líka að leggja fram mun betri skýringar á því af hverju þeir trúa að tíminn vinni með hinu sundraða liði, sem í besta falli hefur lýst yfir hálfstríði, frekar en hinu sameinaða öfgaliði, sem hefur lýst yfir allsherjarstríði.

Frelsi er ekki fyrir alla. Leiðin til Raqqa var á ýmsa vegu leiðin frá byrði frelsisins – frá valfrelsi einstaklingsins og sjálfheldum þess til alltumvefjandi hugmyndafræði íslamista. Ef hinn frjálsi heimur og hugsanlegir bandamenn á svæðinu eiga að berjast gegn aðdráttarafli þess verða þeir að rífa sig upp úr neytendavímu frelsisins.

Venjulegur dagur í Aleppo
Venjulegur dagur í Aleppo AFP

Verði Ríki íslams leyft að treysta ítök sín á því landi, sem þau hafa á valdi sínu, næsta árið jafngildir það því að bjóða heim, eða í það minnsta sætta sig við, að fjöldamorðin í París verði endurtekin í borg í Evrópu eða Bandaríkjunum. Þá er einnig verið að sætta sig við að ástandið í Sýrlandi versni enn eitt árið. Hið illa breiðist út ef ekki er tekið á móti. Það kennir sagan. Að berjast á jörðu niðri og sigra vígamennina í vígi þeirra, sem nær yfir landamæri tveggja ríkja, myndi ekki binda enda á ógn hryðjuverka og í framhaldinu myndi vestrið og bandamenn þess standa frammi fyrir erfiðum kostum. Allt bendir til þess að þessir djíhadistar séu góðir hryðjuverkamenn en áhugalausir hermenn. Hið fullkomna getur í þessu tilfelli ekki verið óvinur hins góða,“ skrifar Cohen.

Alþjóðasamfélagið hefur svo sannarlega blandað sér inn í átökin í Sýrlandi, átök sem erfitt er að átta sig á hver er að berjast við hvern ekki síst undanfarnar vikur þar sem óljósar víglínur liggja svo sem í Norður-Sýrlandi.

Á meðan Rússar segjast styðja stjórnarherinn við að yfirbuga Ríki íslams eru ítrekað gerðar árásir á almenna borgara í borgum og bæjum sem ekki eru undir yfirráðum Ríkis íslams heldur herafla stjórnarandstæðinga í Sýrlandi. Þeir Weiss og Hassan halda því fram í bók sinni um Ríki íslams  Assad forseti Sýrlands hafi vísvitandi látið Ríki íslams í friði þegar vígasamtökin lögðu undir sig hluta landsins. Með því væri tryggt að andúð alþjóðasamfélagsins á voðaverkum sem unnin eru af stjórnvöldum í landinu færðust yfir á vígasamtökin. Á sama tíma gæti stjórnarherinn herjað á her stjórnarandstæðinga án þess að það vekti neina sérstaka athygli heimsins.

Ein þeirra borga sem hefur verið mjög í kastljósi fjölmiðla er Aleppo en baráttan um borgina og samnefnt héraðs virðist vera jafn endalaus og stríðið sjálft í Sýrlandi og hundruð þúsunda borgarbúa eru lokaðir inni í kúlna- og sprengjuregni. Ekkert bendir til annars en að Aleppo brenni áfram alveg eins og engin lausn er í sjónmáli fyrir íbúa Sýrlands nú fimm og hálfu ári eftir að saklaust veggjakrot unglingspilta varð að ófriðarmáli sem hefur kostað fleiri hundruð þúsund manns lífið og margar milljónir heimilið.

AFP

Hagsmunir stórveldanna miklir í Sýrlandi

Magnús Þorkell segir að það sé mjög erfitt, nánast vonlaust, að spá fyrir um hvað mun gerast í Sýrlandi. En eftir að stjórnarandstaðan náði einhverjum árangri í byrjun, eru stjórnarliðar að vaxa ásmegin enda nýtur Sýrlandsforseti nú stuðning Rússlands og að einhverju leyti Írans sem hjálpar honum mjög. „Þetta gæti endað i pattstöðu og að landinu yrði nánast skipt í tvennt en það þýðir ástandið verður áfram eldfimt og viðkvæmt. Ómögulegt að spá sem sé en Sýrlandsstjórn er með byr í seglin,“ segir Magnús Þorkell.

Hann segir eðli borgarastyrjaldarinnar í Sýrlandi gera það að verkum að erlendir aðilar eru ekki ákafir að koma að með beinum hætti. Þess vegnar er líklegra að þeir haldi áfram loftárásum sínum líkt og þeir hafa gert undanfarið ár.

Íbúðahverfi í Aleppo.
Íbúðahverfi í Aleppo. AFP

„Hagsmunir stórveldanna í Sýrlandi eru slíkir að það réttlætir varla stórfellda erlenda íhlutun. Eitt sem þarf að gera nú þegar er að stöðva vopnainnflutning í Sýrland. Lönd eins og Serbía, Frakkland, Bandaríkin, Furstadæmin og Búlgaría selja árasaraðilum sífellt vopn. Þetta þarf að stöðva. Svo hefur hin diplómatíska leið ekki verið farin. Af hverju hefur ekki verið haldin friðarráðstefna varðandi Sýrland?“ spyr Magnús Þorkell Bernharðsson en aðspurður um hvað gerist að stríði loknu spyr hann á móti: Hvernig ná þjóðir sér almennt eftir slík stríð? Verður júgóslavneska leiðin? Eða verður hægt að ljúka þessu eins og í Líbanon? „Vonandi verður það seinni kosturinn,“ segir Magnús Þorkell.  

Loftárás á Raqqa
Loftárás á Raqqa AFP

Á meðan þetta ástand varir er ekki við öðru að búast en að flóttafólk haldi áfram að streyma frá þessu stríðshrjáða landi. Fólk sem eygir enga von heima fyrir og eina lausnin er að komast í burtu frá gjöreyðinginu. En hvað bíður þessa fólk sem leggur á sig erfitt ferðalag að heiman? Hvernig tekur heimurinn á móti þeim? Hér á mbl.is um helgina verður fjallað um flóttafólkið sem hefur streymt til Evrópu undanfarin ár. Straumur sem ekki sér fyrir endann á. Jafnframt verður fjallað um uppgang þjóðernishreyfinga í Evrópu samfara flóttamannastraumnum til álfunnar.

Vígamenn Ríkis íslams.
Vígamenn Ríkis íslams. STR
Meðlimir Ríkis íslams ráða ríkjum í sýrlensku borginni Raqqa.
Meðlimir Ríkis íslams ráða ríkjum í sýrlensku borginni Raqqa. AFP
mbl.is