Fyrsti andlitsþeginn látinn

Isabelle Dinoire í febrúar og nóvember 2006.
Isabelle Dinoire í febrúar og nóvember 2006. AFP

Franska konan, sem var fyrst til að gangast undir andlitságræðslu, er látin. Isabelle Dinoire lést í apríl sl. eftir langvinn veikindi, samkvæmt yfirlýsingu sjúkrahússins í Amiens.

Að því er fram kemur í Le Figaro hafnaði Dinoire ágræðslunni í fyrra og missti m.a. máttinn í vörunum. Andlitságræðslan var framkvæmd í nóvember 2005.

Sjúkrahúsið í Amiens sagðist hafa haldið dauða Dinoire leyndum fjölskyldu hennar vegna.

Samkvæmt Le Figaro tók Dinoire lyf til að koma í veg fyrir að líkami hennar hafnaði ágræðslunni, en þau gerðu hana viðkvæmari fyrir krabbameinum og barðist hún við tvö slík þegar hún lést.

Dinoire var 38 ára þegar hún gekkst undir aðgerðina 2005, en hún missti andlitið þegar hundur réðst á hana. Ágræðslan var þríhyrningslaga og samanstóð m.a. af nefi, vörum og höku heiladauðs gjafa.

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert