Búrkíni-bannið stendur

Það er heimilt að vera í bikíní en ekki búrkíní …
Það er heimilt að vera í bikíní en ekki búrkíní á ströndinni á Korsíku. AFP

Héraðsdómur í Bastia á frönsku eyjunni Korsíku staðfesti í gær ákvörðun bæjaryfirvalda í Sisco um að banna konum að klæðast búrkíní-sundfatnaði. Sagði í niðurstöðu héraðsdóms að bannið væri heimilt með lögum á grundvelli almannareglu (public order).

Í síðasta mánuði kom til átaka á ströndinni milli fjölskyldna af norðurafrískum uppruna og ungmenna í bænum. 

Banni gegn búrkíní-sundfatnaði sem sett var á í bænum Villeneuve-Loubet í Frakklandi var vikið til hliðar af æðsta stjórnsýsludómstóli Frakklands í ágúst. Í röksemdum dómstólsins segir að bannið sé alvarlegt og brjóti bersýnilega gegn grundvallarréttindum, svo sem trúfrelsi. Stjórnvöld hafa ekki leyfi til að skerða frelsi einstaklingins án þess að sanna að almannahagsmunir krefjist þess. Fastlega var gert ráð fyrir að bannið yrði afturkallað í þeim rúmlega 30 bæjum Frakklands sem höfðu sett slíkt bann. 

Aftur á móti kom fram í niðurstöðu stjórnsýsludómstólsins að bannið væri heimilt ef líkur væru á að búrkíní myndu valda ónæði á almannafæri. Í niðurstöðu héraðsdóms í Bastia kemur fram að bannið eigi að gilda áfram vegna afstöðu fólks á eyjunni til búrkíní.

Bæjarstjórinn í Sisco, Ange-Pierre Vivoni, segir niðurstöðu dómsins vera létti fyrir sig og aðra bæjarbúa. Hann óttast að að öðrum kosti hefðu deilurnar getað endað með dauðsföllum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert