Heimildarmynd kveikjan að blaðamannafundi

Marianne Ny saksóknari í máli Julian Assange.
Marianne Ny saksóknari í máli Julian Assange. AFP

Áfrýjunardómstóll í Svíþjóð mun á föstudag ákveða hvort handtökuskipun á hendur Julian Assange verði felld niður eða endurnýjuð. Sænska ríkissjónvarpið sýndi í gær þátt um mál Assange og er meðal annars rætt við Ögmund Jónasson, fyrrverandi innanríkisráðherra, um rannsókn FBI á Assange.

Saksóknari í máli sænska ríkisins gegn Assagne, stofnanda Wikileaks, sem er sakaður um nauðgun í Svíþjóð árið 2010, Marianne Ny, og ríkissaksóknari, Ingrid Isberg, héldu blaðamannafund í Stokkhólmi í gær þar sem þær fóru yfir rannsóknina sem hefur staðið í sex ár.

Assange hefur alltaf neitað ásökunum um kynferðisofbeldi gagnvart tveimur konum í Svíþjóð og fékk hæli í sendiráði Ekvador árið 2012 til þess að komast hjá handtöku.

Stofnandi WikiLeaks, Julian Assange.
Stofnandi WikiLeaks, Julian Assange. AFP

Ny sagði á fundinum í gær að hún hefði reynt að fá heimild til þess að yfirheyra hann frá árinu 2010 og varði þá ákvörðun sína fyrir blaðamönnum að hafa ekki óskað eftir fundi með honum í Lundúnum á fyrri stigum málsins.

Venjulega er sá grunaði staddur í Svíþjóð og hann oft settur í gæsluvarðhald eða farbann til þess að koma í veg fyrir að viðkomandi fari úr landi. „Ég sá enga ástæðu til þess að gefa Assange sérmeðferð,“ sagði Ny á blaðamannafundinum.

Ny segir að það sé hins vegar mjög miður að rannsókninni hafi ekki miðað áfram. Að því leyti hafi hún verið klúður. Hún hafi orðið að breyta afstöðu sinni á síðari stigum þar sem ekki voru aðrir kostir í stöðinni. Því biði hún nú eftir því að yfirvöld í Ekvador kæmu á fundi með Assange. Í einhverjum fjölmiðlum hefur komið fram að það gæti jafnvel orðið á föstudag.

Yfirvöld í Ekvador samþykktu í ágúst að Assange yrði yfirheyrður í sendiráðinu en að það yrði saksóknari frá Ekvador sem myndi stýra yfirheyrslunni ekki Ny.

Ny segir að ef sænskir saksóknarar fá að vera viðstaddir þá séu þau reiðubúin til þess að fara til Lundúna með stuttum fyrirvara.

Í þættinum í gærkvöld neitaði Assagne enn á ný ásökunum um nauðgun og segist ekki svara spurningum um það í þættinum. Rétti vettvangurinn fyrir þá umræðu er með sænskum saksóknara sem hingað til hefur forðast að hitta hann.

Í frétt Dagens Nyheter kemur fram að í heimildarmyndinni um Assange sé einni fjallað um mögulega saksókn bandarískra yfirvalda gegn Assagne.

Þar er rætt við Ögmund sem segir að fulltrúar bandarísku alríkislögreglunnar, FBI, hafi heimsótt hann árið 2012 vegna mála tengdum Assange.

Eins er haft eftir John Bellinger, fyrrverandi ráðgjafa George W. Bush, sem segir í þættinum að sakamálarannsókn sé í gangi gagnvart Assange í Bandaríkjunum.

Hér er hægt að horfa á þáttinn í heild 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert