Kjósendur Trump ekki ömurlegir

Hillary Clinton hefur beðist afsökunar á að hafa kallað helming …
Hillary Clinton hefur beðist afsökunar á að hafa kallað helming stuðningsmanna Donalds Trumps ömurlegan. AFP

Hillary Clinton, forsetaframbjóðandi Demókrataflokksins, hefur beðist afsökunar á að hafa kallað helming stuðningsmanna Donalds Trump ömurlegan. 

„Í fullkominni hreinskilni er hægt að flokka helming stuðningsmanna Trumps sem hóp af ömurlegu fólki. Því miður er til þannig fólk og hann hefur veitt því meðbyr,“ sagði Clinton á fjáröflunarfundi í New York í gær.

Trump brást við með því að segja að ummæli Clinton væru móðgandi fyrir milljónir manna sem hefðu lagt virkilega hart að sér.

BBC greinir frá því að afsökunarbeiðninni fylgdi hins vegar yfirlýsing þar sem Clinton lofaði að halda áfram að berjast gegn þröngsýni og rasískum boðskap mótframbjóðanda síns.

Nýjustu kannanir benda til að bilið milli frambjóðendanna sé að minnka; Trump nálgast nú Clinton og eru þau hnífjöfn í mikilvægum ríkjum eins og Ohio og Flórída.

Ummæli Clinton hafa verið borin saman við orð Mitt Romney frá kosningabaráttunni fyrir fjórum árum um að 47% Banda­ríkja­manna væru vel­ferðarþegar. Ekki er ljóst hvort eða hvernig ummæli Clinton munu hafa áhrif á hennar baráttu.

Helsta óvissan í baráttunni þessa stundina er hvernig óákveðnir kjósendur muni haga atkvæði sínu. Samkvæmt nýjustu könnunum hölluðust þeir að Clinton eftir flokksþing Demókrata en nú hefur hluti þess stuðnings gengið til baka. Rétt tæpir tveir mánuðir eru til kosninga, kjördagur er 8. nóvember. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert