Vill skapa breiða samstöðu

Forseti Suður-Kóreu, Park Geun-Hye, ætlar að funda með leiðtogum stjórnarandstöðunnar í landinu á morgun vegna kjarnorkutilrauna stjórnvalda í Norður-Kóreu fyrir helgi. Talið er að tilgangur fundarins sé að fá stjórnarandstöðuna til þess að láta af andstöðu sinni við það að komið verði upp bandarísku eldflaugavarnarkerfi í Suður-Kóreu.

Fram kemur í frétt AFP að talsmenn stjórnvalda í Suður-Kóreu hafi staðfest að fundurinn fari fram en ekki tilefni hans. Haft er eftir ónafngreindum háttsettum embættismanni að markmið forsetans sé að reyna að skapa breiða pólitíska samstöðu um viðbrögð við kjarnorkutilraunum Norður-Kóreu.

Park hvatti til þess á föstudaginn að látið yrði af andstöðu við eldflaugavarnarkerfið en stjórnvöld í Suður-Kóreu tilkynntu í júlí áform um að koma kerfinu upp í landinu vegna vaxandi ógnar frá Norður-Kóreu. Stjórnarandstaðan óttast að eldflaugavarnarkerfið yrði aðeins til þess að auka á spennuna á Kóreuskaganum.

Kínverjar hafa einnig mótmælt fyrirætlununum á þeim forsendum að hægt yrði að beita kerfinu einnig gegn þeim.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert