Skotinn í bringuna á verndarsvæði

Björninn fannst á föstudag.
Björninn fannst á föstudag. AFP

Spænsk lögregluyfirvöld rannsaka nú dráp á brúnbirni sem fannst með skotsár á bringunni í Muniellos Nature Reserve í héraðinu Asturias. Ferðamenn fundu björninn á föstudag en tegundin er friðuð.

Talið er að um 280 evrópskir brúnbirnir eigi heimkynni sín á Spáni en þeir halda sig aðallega í skógum Asturias og í fjöllunum við landamærin að Frakklandi.

Að sögn forseta verndarsamtakanna Oso Pardo er drápið á birninum afar alvarlegt og mikið áhyggjuefni, ekki síst vegna þess að það átti sér stað „í hjarta verndaðs svæðis.“

„Það er ekkert sem réttlætir að skjóta og drepa björn,“ segir Guillermo Palomero.

Birnirnir hafa skapað sér óvinsældir meðal íbúa þar sem þeir leggjast á búfé.

Karldýrin geta orðið allt að 350 kg og kvendýrin 200 kg. Brúnbjörninn getur náð allt að tveggja metra hæð þegar hann reisir sig á afturfæturna og fer hraðar yfir en maðurinn þegar því er að skipta.

Evrópski brúnbjörninn er alæta og étur jafnt ber og hnetur og minni og stærri dýr.

Samkvæmt World Wildlife Fund gegna birnirnir mikilvægu hlutverki, bæði halda þeir öðrum dýrastofnum í skefjum og dreifa fræjum þegar þeir ganga örna sinna.

Dýrið var um 105 kg.
Dýrið var um 105 kg. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert