Herferð fyrir náðun Snowden

Edward Snowden býr nú í Moskvu.
Edward Snowden býr nú í Moskvu. AFP

Uppljóstrarinn Edward Snowden og stuðningsmenn hans hafa hafið herferð þar sem óskað er eftir því að forseti Bandaríkjanna, Barack Obama, náði Snowden vegna njósna þegar hann upplýsti um  umfangsmikið rafrænt eftirlit stjórnvalda í Bandaríkjunum og víðar. Síðan þá hefur Snowden verið í útlegð, lengst af í Rússlandi. Segir Snowden að þegar fólk horfi á uppljóstrun hans í heild megi sjá að hún hafi verið jákvæð og skilað árangri í opinberri stefnumótun.

Ef Snowden snýr aftur bíða hans lokuð réttarhöld og ákæra í þremur liðum og gæti hann verið dæmdur í 30 ára fangelsi. Hann hefur þó gefið út að hann vilji snúa til baka og hefur meðal annars sagt að verði réttarhöldin opin muni hann koma til Bandaríkjanna.

Áður hefur verið reynt að fá Snowden náðaðan, en í fyrra söfnuðust 167 þúsund undirskriftir á bænarskjal þar sem óskað var eftir að hann fengi sakaruppgjöf. Hvíta húsið þarf að svara svo fjölmennum undirskriftasöfnunum formlega og var svarið einfalt nei.

Í viðtali sem hann veitti Guardian segir Snowden að það sé rétt að lögin séu skýr um ákveðna hluti, en að ástæða þess að forsetinn geti náðað fólk sé mögulega sú að það séu undantekningar. Það sé fyrir þau tilfelli þar sem lögin virðist óréttlát og aðgerðir siðferðilega réttar í heildar samhenginu.

Segist Snowden viss um að þegar fólk muni vega og meta heildaráhrif þess að hann birti gögnin á sínum tíma komist það að því að aðgerðir hans hafi verið til góðs. Bæði þingið, dómstólar og forsetinn hafi allir breytt stefnu sinni í málefnum um persónufrelsi. Á sama tíma séu engin gögn sem sýni fram á að neinn hafi orðið fyrir skaða af birtingu gagnanna.

Þrátt fyrir að Obama hafi undanfarið verið rausnarlegur þegar kemur að náðunum verður að teljast mjög ólíklegt að hann náði Snowden nú á síðustu mánuðum forsetatíðar sinnar. Þá þykir enn ólíklegra að slíkt verði gert hvort sem Donald Trump eða Hillary Clinton verði næsti forseti Bandaríkjanna.

Herferð Snowden gæti fengið byr undir báða vængi í vikunni, en á föstudaginn verður kvikmynd leikstjórans Oliver Stone um uppljóstrarann frumsýnd. Mun hann meðal annars ræða við forsýningargesti á sérstakri sýningu með Stone á miðvikudaginn.

Umfjöllun Guardian um málið

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert