Fylgdust með börnum á netinu

Búnað til að fylgjast áfram með þeim sem heimsóttu síðuna …
Búnað til að fylgjast áfram með þeim sem heimsóttu síðuna var m.a. að finna á vefsíðu Barbie. Mynd/Mattel

Þrír leikfangaframleiðendur og eigandi Nickelodeon sjónvarpssamsteypunnar hafa sætt ávítum og verið sektaðir eftir að í ljós kom að vefsíður fyrirtækjanna voru með tæknibúnað sem gerði þeim kleift að fylgjast áfram með þeim sem heimsóttu síðurnar.

Embætti saksóknara New York hefur greint frá því að fyrirtækin hafi fallist á að greiða sekt að heildarandvirði 835.000 dollara, eða um 96 milljónir íslenskra króna, fyrir athæfið.

Samkvæmt bandarískum lögum þá er bannað nota vefsíður til að safna upplýsingum um börn undir 13 ára aldri án þess að hafa áður fengið leyfi foreldra barnanna.

Verið er að rannsaka hvort sambærilegan búnað sé einnig að finna á öðrum vefsíðum ætluðum börnum.

„Í dag eyða börn miklum hluta tíma síns á netinu og við verðum að sinna löggæslu á netinu rétt eins og á götum úti,“ hefur fréttavefur BBC eftir saksóknaranum Eric Schneiderman. „Ég vil ekki að það sé til skýrsla um neitt barn sem síðar er hægt að nota til að blekkja það.“

Fyrirtækin sem um ræðir eru Mattel, Viacom, Hasbro og Jumpstar og var búnaðinn m.a. að finna á vefsíðum Barbie, Fisher-Price, Monster High, Tomma togvagns, Dóru landkönnuðar og Svamps Sveinssonar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert