1,2 milljónir dollara bætur fyrir drónaárás

Giovanni Lo Porto hvarf frá Pakistan 2012 og lítið er …
Giovanni Lo Porto hvarf frá Pakistan 2012 og lítið er vitað hvað varð af honum fyrr en hann lést í drónaárásinni.

Bandarísk stjórnvöld hafa fallist á að greiða fjölskyldu ítalsks hjálparstarfsmanns sem fórst í drónaárás í Pakistan í fyrra 1,2 milljónir dollara – eða um 138 milljónir kr. -  í bætur, samkvæmt upplýsingum ítalskra og breskra fjölmiðla.

Hjálparstarfsmaðurinn Giovanni Lo Porto fórst er hann varð fyrir drónaárás á meðan hann var gísl Al-Quaeda hryðjuverkasamtakanna. Bandarískur hjálparstarfsmaður, sem einnig var gísl Al-Quaeda, fórst einnig í árásinni.

Enginn staðfesting á bótagreiðslunni hefur borist frá embætti Bandaríkjaforseta, en Barack Obama Bandaríkjaforseti  sagði í apríl í fyrra að hann harmaði lát mannanna sem Bandaríkin bæru ábyrgð á.

Á þeim tíma sagði í yfirlýsingu frá Hvíta húsinu að aðgerðum Bandaríkjahers hefði verið beint gegn búðum Al-Quaeda Afganistanmegin landamæranna við Pakistan og að talið hefði verið að engir óbreyttir borgarar væru á svæðinu.

Dagblöðin La Repubblica og Guardian segja í samkomulaginu um bótagreiðsluna hins vegar koma fram að Lo Porto hafi verið drepinn í Pakistan.

Segir La Repubblica greiðsluna vera orðaða sem „gjöf í minningu“ Lo Porto, sem hvarf frá Multan í Pakistan í janúar 2012. Lítið er vitað um hvað varð af honum eftir það, en hann starfaði á þeim tíma fyrir alþjóðlegu hjálparsamtökin  Welthungerhilfe.

Guardian segir þetta vera fyrstu bótagreiðslu sem bandarísk stjórnvöld hafi fallist á að greiða fölskyldu fórnarlambs drónaárásar skaðabætur.

Gíslar létust í drónaárás

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert