Assange áfram eftirlýstur

Sænski saksóknarinn, Marianne Ny, fer með mál Assange.
Sænski saksóknarinn, Marianne Ny, fer með mál Assange. AFP

Handtökuskipun sænskra yfirvalda á hendur stofnanda WikiLeaks, Julian Assange, er áfram í gildi, samkvæmt niðurstöðu áfrýjunardómstóls í Svíþjóð. Assange fór fram á að handtökuskipuninni yrði aflétt en hans er eftirlýstur af ríkissaksóknara í Svíþjóð vegna nauðgungar sem hann er sakaður um þar í landi árið 2010.

Í yfirlýsingu frá dómstólnum kemur fram að Assange liggi enn undir grun um nauðgun en Assange hefur dvalið í sendiráði Ekvador í London síðan í júní 2012 en hann leitaði þar hælis af ótta við að bresk yfirvöld myndu framselja hann til Svíþjóðar.

Assange hefur neitað að fara til Stokkhólms til þess að svara spurningum saksóknara vegna nauðgunarkærunnar. Segist hann óttast að Svíar muni framselja hann til Bandaríkjanna vegna leka WikiLeaks á 500 þúsund leyniskjölum bandarískra yfirvalda í tengslum við stríðin í Afganistan og Írak.

Þetta er í áttunda skiptið sem evrópska handtökuskipunin er tekin fyrir af sænskum dómstól. Í öll skiptin hefur niðurstaðan verið Assange í óhag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert