Diane James kjörin leiðtogi UKIP

Diane James hefur verið kjörin nýr leiðtogi breska sjálfstæðisflokksins, UKIP. Hún kemur í stað Nigels Farage, sem vék úr sæti leiðtoga eftir að Bretar ákváðu að yfirgefa Evrópusambandið í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Frétt mbl.is: Nigel Farage stígur til hliðar 

James hlaut 8.451 atkvæði í kosningunni, samkvæmt niðurstöðum sem voru birtar á haustþingi UKIP í borginni Bournemouth.

„Breyttu gangi sögunnar“

Farage sagði á haustþinginu að UKIP hefði „breytt gangi sögunnar í Bretlandi“ með Brexit-málinu. Hann var mjög áberandi í baráttunni fyrir brotthvarfi Breta úr ESB og ákvað að hætta sem leiðtogi UKIP skömmu eftir þjóðaratkvæðagreiðsluna. Hann sagði að sér hefði tekist ætlunarverk sitt sem hann hefði barist fyrir í svo langan tíma.

„Án okkar hefði ekki verið nein þjóðaratkvæðagreiðsla. Án ykkar og her fólks hefði ekki nein herferð verið unnin,“ sagði Farage, sem hefur barist fyrir brotthvarfi Breta úr ESB síðan snemma á tíunda áratugnum.

„Við höfum í sameiningu breytt gangi sögunnar í Bretlandi,“ sagði hann.  

Nigel Farage faðmar Diane James á haustþinginu.
Nigel Farage faðmar Diane James á haustþinginu. AFP

Ekki búið að undirrita skjölin

James, sem hefur verið talsmaður flokksins í innanríkismálum, sagði að UKIP væri „sigurmaskína“ en varaði við því að flokkurinn hefði aðeins unnið „undanrásirnar“ í kapphlaupinu um að yfirgefa ESB því ekki væri búið að undirrita skjölin um að yfirgefa sambandið.

„Þangað til við fáum undirskrift erum við enn þarna inni og þeir geta haldið áfram að segja okkur hvað við eigum að gera,“ sagði hún.

Diane James flytur ræðu í Bournemouth.
Diane James flytur ræðu í Bournemouth. AFP

Þrýsta á Theresu May

Að sögn Farage mun UKIP halda áfram að þrýsta á Theresu May, forsætisráðherra Bretlands, um að halda Brexit til streitu. Sjálfur ætlar hann að halda áfram í stjórnmálum og hyggur á ferðalög til Evrópu þar sem ætlar að hitta sams konar stjórnmálahreyfingar.

Nigel Farage kynnir Diane James til sögunnar.
Nigel Farage kynnir Diane James til sögunnar. AFP
AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert