Segir ESB í erfiðri stöðu

Angela Merkel ræðir við fjölmiðla í Bratislava í morgun.
Angela Merkel ræðir við fjölmiðla í Bratislava í morgun. AFP

Kanslari Þýskalands, Angela Merkel, segir Evrópusambandið standa frammi fyrir erfiðri stöðu en leiðtogar ríkja ESB eru að hefja fund í Bratislava, höfuðborg Slóvakíu, þar sem framtíð sambandsins eftir Brexit er umræðuefnið. „Við erum í erfiðri stöðu. Við verðum að sýna með gjörðum okkar að við getum gert betur,“ sagði Merkel við fréttamenn við komuna á fundinn.

Forseti framkvæmdastjórnar ESB, Donald Tusk, sagði í gær að leiðtogar ríkja ESB verði að taka skynsamlega en um leið heiðarlega ákvörðun þegar þeir fara yfir vandamál sambandsins í kjölfar ákvörðunar Breta um að yfirgefa ESB. Leiðtogar 27 ríkja sitja fundinn í Bratislava. Forsætisráðherra Breta situr hins vegar heima. 

Ekki er ætlunin að fjalla um viðræður við Breta um útgöngu á fundinum heldur miklu frekar framtíð sambands 27 ríkja í stað 28. Heimildir BBC herma að Tusk vilji að helsta málefni fundarins verði móttaka flóttafólks. 

Leiðtogar Frakklands og Þýskalands hafa rætt um að dýpka samstarf ESB-ríkjanna á hernaðarsviðinu. François Hollande, forseti Frakklands, sagði við komuna á fundinn í morgun að Frakkar gætu tekið að sér leiðtogahlutverkið í varnarsamstarfi álfunnar en gæti hins vegar ekki annast varnir Evrópu eitt og sér. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert