Vill að lífverðir Clinton afvopnist

Donald Trump á framboðsfundi í Miami í gærkvöldi.
Donald Trump á framboðsfundi í Miami í gærkvöldi. AFP

Donald Trump, forsetaframbjóðandi Repúblikanaflokksins, hefur enn á ný verið gagnrýndur fyrir ummæli um mótframbjóðanda sinn, Hillary Clinton.

Trump sagði við stuðningsmenn sína á framboðsfundi í Miami í gær að Clinton væri að reyna að „eyðileggja rétt kjósenda til að bera skotvopn“ og vísaði þar með í aðra grein stjórnarskrá Bandaríkjanna.

„Takið byssurnar þeirra í burtu, hún vill ekki byssur. Takið byssurnar þeirra og sjáum hvað kemur fyrir hana. Takið byssurnar í burtu. Það yrði mjög hættulegt,“ sagði Trump á framboðsfundi sínum og átti við byssur lífvarða Clinton. 

Clinton hefur kallað eftir að byssulöggjöf í Bandaríkjunum verði endurskoðuð og gerð „heilbrigðari.“ Á flokksþingi demókrata í júlí lagði hún þó áherslu á að hún styðji rétt Bandaríkjamanna til byssueignar og að hún muni ekki „taka byssurnar af landsmönnum.“

„Hvort sem þetta er gert til að espa upp kjósendur á framboðsfundi eða sagt í gríni þá eru þetta óásættanleg hegðun í fari þess sem sækir eftir æðstu stöðu hermála,“ sagði Robby Mook, talsmaður framboðs Clinton, í samtali við fréttamann BBC.

Fulltrúar úr kosningastjórn Clinton hafa sakað Trump um að hvetja fólk til beitingu ofbeldis með ummælunum. Trump er einnig sakaður um að hafa ýjað að morði á andstæðingi sínum með ummælunum, og ekki í fyrsta skipti.

Trump gaf í skyn á framboðsfundi í Norður-Karólínu í síðasta mánuði að Clinton vildi afnema aðra grein stjórnarskrárinnar. Þar sagði hann einnig að ef Clinton fengi vald til að velja dómara væri ekkert sem kjósendur gætu gert, „nema með því að nýta aðra grein stjórnarskrárinnar.“ Fulltrúar úr kosningastjórn Trump sögðu seinna að Trump hefði verið að vísa í réttinn til að kjósa, en ekki til að bera vopn eða beita ofbeldi.

 

Hillary Clinton hefur kallað eftir því að byssulöggjöfin í Bandaríkjunum …
Hillary Clinton hefur kallað eftir því að byssulöggjöfin í Bandaríkjunum verði endurskoðuð. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert