Allt að fara til helvítis

Sjálfboðaliðinn Ben Hornberger uppi á pallbílnum sínum í borginni Altoona …
Sjálfboðaliðinn Ben Hornberger uppi á pallbílnum sínum í borginni Altoona í Pennsylvaníu-ríki. AFP

Sjálfboðaliðinn Benjamin Hornberger er aðeins 22 ára en ekki of ungur fyrir stóryrði. Hann segir forsetakosningarnar í Bandaríkjunum snúast um að duga eða drepast.

Hinn duglegi Hornberger, sem safnar atkvæðum fyrir Donald Trump, frambjóðanda repúblikana, er einn af milljónum manna sem vonast til að milljarðamæringurinn frá New York komist í Hvíta húsið.

Hann er týpískur stuðningsmaður Trumps, hvítur karlmaður og ekki með háskólagráðu. Oft hafa stuðningsmenn hans meiri áhuga á loforði hans um „að gera Bandaríkin frábær á nýjan leik“ en því sem hann hefur fram að færa í efnahagsmálum.

„Hingað og ekki lengra“

Margir þessara kjósenda mæta í kjörklefann í fyrsta sinn árið 2016 vegna þess að fram til þessa höfðu þeir lítinn áhuga á stjórnmálum. Núna vonast þeir til að Trump gæti komið í veg fyrir niðursveiflu í Bandaríkjunum á sama tíma og þeir sjálfir færast út á jaðarinn í samfélagi sem tekur örum breytingum.

„Þetta er ekki eins og þegar pabbi var ungur,“ sagði Hornberger við AFP-fréttastofuna. „Satt best að segja er allt farið til helvítis og við þurfum á einhverjum að halda sem stendur upp og segir „hingað og ekki lengra“.

Donald Trump forsetaframbjóðandi.
Donald Trump forsetaframbjóðandi. AFP

Viðhorfin breyttust í hernum

Hornberger er af verkamannafólki kominn og hefði áður fyrr verið ákjósanlegur kjósandi Demókrataflokksins. Hann starfaði reyndar sem sjálfboðaliði fyrir demókratann Barack Obama, er hann bauð sig fram sem forseta Bandaríkjanna árið 2008, en eftir menntaskóla gekk hann til liðs við sjóherinn. Eftir þriggja ára dvöl þar breyttust viðhorf hans til stjórnmála og síðan hann hætti þar í febrúar hafði hann sogast í átt að Trump.

Að sögn Hornberger fór forsetaframbjóðandinn „beint að rót vandans og sagði að hlutirnir væru svona og að þeim verði að ljúka. Og ég var ánægður með það, sem fyrrverandi hermaður,“ sagði hann.

Bankað á hurðir 6 þúsund heimila

Hornberger, sem býr í Altoona í ríkinu Pennsylvaníu, notar smáforrit frá Repúblikanaflokknum í símanum sínum til að finna út á hvaða hurðir hann á að banka er hann dreifir bæklingum til stuðnings Trump. Síðan í apríl hefur hann bankað upp á á að minnsta kosti 6 þúsund heimilum. Um fimmtán klukkustundir á viku fara í sjálfboðastarfið, auk þess sem hann fer þrisvar í viku á kosningaskrifstofu Repúblikanaflokksins í heimabæ sínum til að ræða gang mála.

Á móti fóstureyðingum

Að vonum deilir hann hugmyndafræði með Trump. Hann er á móti fóstureyðingum en fylgjandi hjónabandi samkynhneigðra. Báðir eru þeir hliðhollir frjálsum viðskiptum en telja að Bandaríkin hafi verið hlunnfarin í alþjóðlegum viðskiptasamningum.

Hillary Clinton, forsetaframbjóðandi Demókrataflokksins.
Hillary Clinton, forsetaframbjóðandi Demókrataflokksins. AFP

„Aðeins guð getur dæmt mig“

Hillary Clinton, forsetaframbjóðandi Demókrataflokksins, er ekki í miklum metum hjá Hornberger, sem segir að hún tali máli elítunnar og vilji hafa ástand mála óbreytt í landinu.  

„Það er ekki satt þegar menn segja að Bandaríkin séu frábær. Við erum svo langt á eftir á svo mörgum sviðum. Við erum bara fremst þegar kemur að málefnum hersins.“

Hornberger er með húðflúr á brjóstkassanum þar sem stendur „Aðeins guð getur dæmt mig“. Hann trúir einnig á annan, veraldlegan frelsara. „Allir í heiminum, hvort sem þér líkar það eða ekki, eru að hvísla nafnið Donald Trump.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert