Brexit verði „mjög sársaukafullt“

Theresa May og Robert Fico.
Theresa May og Robert Fico. AFP

Evrópusambandið mun sjá til þess að útganga Breta úr sambandinu verði „mjög sársaukafull“ fyrir Bretland. Þetta segir Robert Fico, forsætisráðherra Slóvakíu, í viðtali við viðskiptablaðið Financial Times sem birt er í dag. 

„Evrópusambandið mun nota tækifærið til þess að sgja við almenning: Sjáiði, nú sjáið þið hvers vegna það er mikilvægt að vera í Evrópusambandinu. Þetta verður afstaðan,“ segir Fico en ríkisstjórn hans fer um þessar mundir með forsætið í ráðherraráði sambandsins.

Rifjað er upp í frétt AFP að Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, hafi ítrekað sagt að bresk stjórnvöld muni sjá til þess að útgangan úr Evrópusambandinu takist vel. Hún hafi hins vegar ekki enn gefið upp hvort sóst verði eftir áframhaldandi aðild að innri markaði sambandsins. Sama eigi við um hvernig verði með frjálsa för fólks frá ríkjum þess.

Fico segir May vera að stunda blekkingarleik þegar kemur að mikilvægi Bretlands sem markaðar. Jafnvel þótt um fimmta stærsta hagkerfi heimsins væri að ræða yrði útganga Breta úr Evrópusambandinu eftir sem áður mjög sársaukafull.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert