Þóttist vera 15 ára stúlka

Maðurinn notaðist bæði við Facebook og Skype.
Maðurinn notaðist bæði við Facebook og Skype. AFP

Norska lögreglan telur að maður á þrítugsaldri frá Tromsø hafi notast við netið til að misnota kynferðislega um sextíu börn. Þá hefur hann verið kærður fyrir að hafa líkamlega brotið á nokkrum börnum til viðbótar.

Að því er fram kemur í yfirlýsingu lögreglu áttu brotin sér að mestu stað frá árinu 2014 og fram á þetta ár, og beindust að börnum á 12 til 15 ára aldri. Flest þeirra voru á Tromsø-svæðinu en lögregla kannar einnig möguleikann á að börn annars staðar í Noregi hafi orðið fyrir barðinu á manninum.

„Fram til þessa höfum við rætt við um sextíu fórnarlömb og lögregla er enn að vinna að greiningu þeirra gagna sem lagt var hald á. Umfang málsins verður meira eftir því sem rannsókninni vindur fram,“ segir Elin Norgård Strand, talsmaður lögreglunnar í Tromsø.

Sakborningurinn hefur verið í haldi síðan í mars, þegar rannsókn lögreglu hófst.

Flest barnanna voru á Tromsø-svæðinu.
Flest barnanna voru á Tromsø-svæðinu. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Kynnti sig einnig undir eigin nafni

Samkvæmt upplýsingum lögreglu notaði maðurinn veraldarvefinn til að misnota kynferðislega fjölda ungra drengja. Með því að notast við gervireikninga á Facebook og Skype þóttist maðurinn vera 15 ára gömul stúlka, til að fá drengina til að skiptast á kynferðislega djörfum myndum og myndböndum.

Þá er hann eins og áður sagði kærður fyrir að hafa líkamlega brotið á börnum undir sextán ára aldri.

„Ákærði hitti einhver fórnarlambanna í eigin persónu. Þau nálgaðist hann á annan hátt og kynnti sig fyrir þeim undir eigin nafni,“ segir Strand.

Maðurinn hefur að hluta til játað sök sína.

Sjá frétt Norska ríkisútvarpsins

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert