Fundu lík í hjólabúnaði flugvélar

Fyrir kemur að laumufarþegar leggi líf og limi í hættu …
Fyrir kemur að laumufarþegar leggi líf og limi í hættu með því að lauma sér inn hjá hjólabúnaði flugvéla. AFP

Flugvallarstarfsmenn í Jeddah í Sádi-Arabíu fundu í dag lík í hjólabúnaði flugvélar sem var að koma frá Nígeríu, að því er sádiarabískir ríkisfjölmiðlar hafa greint frá.

Um var að ræða leiguflugvél frá sádiarabíska lággjaldaflugfélaginu Flynas og var það við reglubundið eftirlit að lokinni lendingu á King Abdulaziz-alþjóðaflugvellinum í Jeddah sem líkið fannst.

Sádiarabíska fréttastofan segir vélina hafa verið að koma heim eftir að hafa flutt hóp nígerískra pílagríma aftur heim að lokinni árlegri pílagrímsferð.

Ekki hafa enn verið borin kennsl á líkið, en fyrir kemur að laumufarþegar leggi líf og limi í hættu með því að lauma sér inn hjá hjólabúnaði flugvéla.

Nígeríubúar eru fjölmennir í hópi þeirra hælisleitenda, sem halda til Evrópu í leit að betra lífi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert