Granma birti tilkynningu sendiráðsins

Maður les Granma úti á götu.
Maður les Granma úti á götu. AFP

Blað var brotið í sögunni í dag þegar Granma, dagblað Kommúnistaflokksins á Kúbu, birti tilkynningu frá bandaríska sendiráðinu. Í tilkynningunni var að finna upplýsingar um það hvernig Bandaríkjamenn búsettir á Kúbu geta nálgast utankjörfundaratkvæðaseðla fyrir forsetakosningarnar í nóvember.

Talsmaður sendiráðsins sagðist fagna þessum tímamótum, sem verða í kjölfar endurnýjaðra tengsla Bandaríkjanna og Kúbu.

„Granma birtir reglulega tilkynningar frá öðrum ráðuneytum,“ sagði talsmaðurinn við AFP. „Okkur er það mögulegt núna þegar við erum sendiráð. Við erum glöð yfir því að Granma birti [tilkynninguna].“

Eins og tíðkast var ekkert gjald tekið fyrir.

Sendiráðið hefur ekki nákvæmar upplýsingar um fjölda Bandaríkjamanna búsetta á Kúbu. Enn er í gildi bann við því að Bandaríkjamenn ferðist til eyjarinnar sem ferðamenn, en þeir mega ferðast þangað á ákveðnum forsendum.

Tengslin milli Washington og Havana rofnuðu í kjölfar uppreisnarinnar 1961, þegar Fidel Castro tók við völdum. Bróðir hans Raúl situr nú á forsetastóli. Tengslin voru endurnýjuð í júlí 2015 og sendiráð opnuð í báðum borgum.

Bandaríska þingið hefur hins vegar sýnt því lítinn áhuga að aflétta áratugalöngu viðskiptabanni. Þá vilja stjórnvöld í Havana endurheimta Guantanamo-flóa, sem hefur verið á valdi bandaríska hersins frá 1903.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert