Gruna Ríki íslams um efnavopnaárás

Flugskeyti sem lenti í næsta nágrenni við Qayara herbúðir Bandaríkjamanna …
Flugskeyti sem lenti í næsta nágrenni við Qayara herbúðir Bandaríkjamanna í nágrenni Mosul AFP

Hryðjuverkasamtökin Ríki íslams kunna að hafa skotið flugskeyti með efnavonum á bandarískar herbúðir í Írak samkvæmt fréttum bandarískra fjölmiðla.

Flugskeyti sem lenti í næsta nágrenni við Qayara herbúðir Bandaríkjamanna í nágrenni Mosul í Írak er talið mögulega hafa innihaldið sinnepsgas. Enginn særðist í árásinni,en hundruð bandarískra hermanna dvelja í herstöðinni.

Verði staðfest að sinnepsgas hafi verið í flauginni, þá er það fyrsta efnavopnaárásin á sveitir bandamanna í Írak. „Maður er ólíklegur til að verða fyrir áhrifum nema maður sé alveg við hliðina á sprengikúlunni,“ hafði Fox News eftir embættismanni í bandaríska varnarmálaráðuneytinu.

Tvenns konar prófanir voru framkvæmdar á vettvangi eftir að hermenn sáu það sem þeim fannst vera „olíukennt“ efni. Fyrra prófið gaf jákævða svörun að sögn CNN, en það síðara neikvæða.

20 skráð tilfelli um efnavopn notuð gegn sveitum kúrdum

Ríki íslams hefur lengið verið grunað um að búa til og nota heimaútbúinn efnavopn bæði í Írak og Sýrlandi. Vitað er til þess að efnavopnum hafi verið beitt gegn kúrdískum uppreisnarmönnum í Írak. 20 slík tilfelli  hafa verið skráð og í fjórðungi þeirra tilfella var sinnepsgas notað.

Sinnepsgas  í miklu magni, getur bæði lamað fólk og jafnvel valdið dauða, en það veldur skemmdum á húð, augum og öndunarvegi.

Mosul er önnur stærsta borg Írak og hefur verið á valdi Ríkis íslams sl. tvö ár, en búist er við að bandamenn reyni að ná henni aftur á sitt vald á næstu vikum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert