Hundruð vísindamanna fordæma Trump

Donald Trump á kosningafundi í Cleveland Heights í Ohio í …
Donald Trump á kosningafundi í Cleveland Heights í Ohio í dag. Vísindamennirnir eru ekki sáttir við afstöðu hans til loftslagsmála. AFP

Tæplega 400 vísindamenn víða um heim hafa skrifað undir opið bréf þar sem þær hugmyndir Donald Trumps, forsetaframbjóðanda Repúblikanaflokksins, að Bandaríkjamenn dragi sig út úr Parísarsamkomulaginu – loftslagssamningi Sameinuðu þjóðanna eru fordæmdar. Í bréfinu vara þeir við að það geti haft alvarlegar afleiðingar fyrir umhverfið verði Trump kjörinn forseti Bandaríkjanna.

 „Parexit (útganga úr Parísarsamkomulaginu) myndi senda skýr skilaboð til umheimsins: Bandaríkjunum stendur á sama um þau hnattrænu vandamál sem rekja má til hlýnunar jarðar af mannavöldum,“ segir í bréfinu. Bandaríkin eru í hópi þeirra 29 ríkja sem þegar hafa fullgilt loftslagssamninginn.

„Afleiðingar þess að segja sig frá alþjóðasamfélaginu væru alvarlegar og langvarandi – fyrir veðurfar á jörðunni og trúverðugleika Bandaríkjanna á alþjóðavettvangi.“

Stephen Hawking og nóbelsverðlaunahafinn Steven Chu skrifa undir

Bréfið var birt í gær á vefsíðunni responsiblescientists.org og er það undirritað af 375 vísindamönnum víða um heim, m.a. breska eðlisfræðingnum Stephen Hawking og nóbelsverðlaunahafanum Steven Chu sem jafnframt er fyrrverandi orkumálaráðherra Bandaríkjanna. Flestir vísindamannanna eru bandarískir og starfa margir hverjir við virtustu háskóla landsins, t.a.m. Harvard, Cambridge og Columbia.

Leiðtogar 190 ríkja áttu þátt í að útbúa Parísarsamkomulagið, þar sem fram kemur að hlýnun jarðar sé vandamál sem verði að leysa.  „Samkomulagið og sú skuldbinding ríkja sem það markaði var lítið en sögulegt fyrsta skref í átt að upplýstari nálgun á hlýnun jarðar. Þess vegna er það mikið áhyggjuefni að forsetaframbjóðandi Repúblikanaflokksins mæli með því að Bandaríkin segi sig frá Parísarsamkomulaginu. Slík ákvörðun myndi gera það mun erfiðara að þróa hnattrænar lausnir á því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda,“ segir í bréfinu.

„Bandaríkin geta og verða að vera lykilþátttakandi í því að þróa nýjar lausnir á því hvernig draga megi úr losun gróðurhúsalofttegunda. Segi þau sig frá Parísarsamkomulaginu þá dregur það úr líkum á því að Bandaríkin gegni leiðtogahlutverki á vettvangi alþjóðastjórnmála, -efnahagsmála eða -siðferðismála. Við getum ekki tekið þá áhættu.“

Þörf á frekari rannsóknum

Útgefandi bandaríska vísindatímaritsins Science spurði fyrir nokkru þá sem eru í framboði til forseta Bandaríkjanna út í skoðanir þeirra á loftslagsbreytingum og sagði Trump þá enn vera þörf á frekari rannsóknum á því sviði.

Svör frambjóðendanna við spurningum vísindamannanna á sviði vísinda, tækni og umhverfismála er að finna hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert