Segja dróna hafa verið yfir bílalestinni

Hjálpargögn liggja á við og dreif í bænum Orum al-Kubr, …
Hjálpargögn liggja á við og dreif í bænum Orum al-Kubr, eftir að flutningalestin sem flutti gögnin varð fyrir árás á mánudagskvöld. AFP

Stjórnvöld í Rússlandi fullyrtu í dag að dróni af gerðinni Predator, sem notaðir eru af Bandaríkjaher og bandamönnum þeirra hafi verið á flugi yfir bílalest Sameinuðu þjóðanna, sem varð fyrir árás í fyrrakvöld þegar hún var að flytja hjálpargögn til íbúa bæjar í nágrenni Aleppo.

„Að kvöldi 19. september, á þeirri stundu sem bílalestin varð fyrir árásinni, þá var hernaðardróni frá alþjóðabandalaginu á 200 km, hraða um 3.600 metra fyrir ofan jörðu á svæðinu þar sem árásin varð,“ sagði Igor Konashenkov, talsmaður rússneska hersins.

Banda­rísk yf­ir­völd hafa sagt Rúss­a bera ábyrgð á árás­inni, en Rússar neita því alfarið og segja að sýr­lenski stjórn­ar­her­inn heldur ekki hafa verið þar að verki. 

Frétt mbl.is: Saka Rússa um árásina

John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, hefur að sögn fréttavefjar BBC, hvatt til þess að loftferðabanni verði komið á yfir lykilsvæðum á Sýrlandi til að reyna að bjarga vopnahléinu sem komið var á milli stríðandi fylkinga á mánudeginum fyrir viku.

Geti hæft skotmörk á jörðu niðri

Í kraftmikilli ræðu á Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna sagði Kerry framtíð Sýrlands hanga á bláþræði.  Árásin á bílalestina á mánudag, sem varð 20 manns að bana vekti upp verulegar efasemdir um að Rússar og sýrlensk stjórnvöld hefðu virt skilmála vopnahlésins.

Rússnesk stjórnvöld neita alfarið að bera ábyrgð á árásinni og Konashenkov  segir dróna líkt og þann sem Rússar fullyrða að hafi verið á ferð yfir bílalestinni geta hæft skotmörk á jörðu niðri.

„Við erum ekki að staðhæfa neitt,“ sagði Konashenkov, sem lét þessi orð falla eftir að Kerry hafði hvatt Rússnesk stjórnvöld til að gangast við ábyrgði á þeim „mistökum“ sem gerð hefðu verið.

Í kjöl­far árás­ar­inn­ar hafa SÞ stöðvað all­ar flutn­inga á hjálp­ar­gögn­um til staða sem eru í herkví í Sýr­landi.

Kerry hvatti til flugbanns svo hægt væri að draga úr spennu á svæðinu og veita færi á flutningi hjálpargagna til þeirra staða þar sem þörfin er mest.

Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, hefur óskað eftir ítarlegri og óháðri rannsókn á árásinni.

Fimm starfsmenn alþjóðlegrar hjálparstofnunnar fórust í gærkvöldi í annarri árás.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert