Sendi Evrópusambandinu fingurinn

Rodrigo Duterte, forseti Filippseyja, (t.h.) liggur ekki á skoðunum sínum.
Rodrigo Duterte, forseti Filippseyja, (t.h.) liggur ekki á skoðunum sínum. AFP

Fréttir af fúkyrðaflaumi Rodrigo Duterte, forseta Filippseyja, eru orðnar nær daglegt brauð. Að þessu sinni brást hann ókvæða við gagnrýni Evrópusambandsins á blóðuga herferð hans gegn glæpum. „Ég segi við þau, farið þið fjandans til,“ sagði forsetinn og sendi sambandinu bókstaflega fingurinn.

Evrópuþingið fordæmdi aftökur án dóms og laga og morð á Filippseyjum sem nú eiga sér stað, við litla hrifningu Duterte. Hann hefur áður kallað Barack Obama, forseta Bandaríkjanna, „hóruson“ fyrir að gagnrýna ofbeldisölduna sem gengur yfir landið að frumkvæði forsetans.

„Þið eruð að þessu til að bæta fyrir syndir ykkar,“ sagði Duterte um Evrópuþingmennina.

Í kosningabaráttunni fyrr á þessu ári lofaði Duterte að binda enda á fíkniefnaglæpi í landinu á hálfu ári og drepa 100.000 glæpamenn í leiðinni. Hann vann yfirburðasigur í kosningunum í maí. Áætlað er að 3.000 manns hafi verið drepnir frá því að hann tók við embætti 30. júní. Þriðjungur þeirra er sagður hafa verið skotinn til bana af lögreglumönnum en hinir drepnir af óþekktum árásarmönnum.

Sérstaklega skeytti Duterte skapi sínu á Frökkum og Bretum og sagði þingmenn þeirra hræsnara, en forfeður þeirra hefðu drepið þúsundir Araba og annarra á nýlendutímanum.

„Þeir eru að setja sig á háan hest til þess að sefa sektarkenndina. En hvern drap ég? Ef við gefum okkur að það sé rétt, 1.700, hverjir eru þeir? Glæpamenn. Kallið þið það þjóðarmorð? Svo er Evrópusambandið svo ósvífið að fordæma mig. Svo ég endurtek. Farið þið fjandans til,“ sagði Duterte og rétti upp löngutöng.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert