Sprengjuhótunin reyndist gabb

Kevin Bailey hjá kanadísku alríkislögreglunni sagði öruggt að senda börnin …
Kevin Bailey hjá kanadísku alríkislögreglunni sagði öruggt að senda börnin í skólann á ný.

Talið er að gabb hafi leitt til þess að rúmlega 19.000 nemendur í 60 skólum á Játvarðseyju í Kanada voru rýmdir í dag. Sprengjuhótun var send til lögreglunnar í Ottawa með faxi þar sem fram kom að sprengjur yrðu sprengdar í ónefndum skólum.

Lögregla leitaði í skólunum en enginn sprengibúnaður fannst. „Að því að ég best veit þá hefur enginn meiðst og enginn ógn fundist,“ sagði Kevin Bailey yfirmaður í Kanadísku alríkislögreglunni við fréttamenn.

Frétt mbl.is: Fjöldi skóla í Kanada rýmdur

„Ég  myndi telja öruggt að senda barnið mitt aftur í skólann. Ef ekkert grunsamlegt fannst þá væri ég öruggur með að hótunin hafi verið gabb.“

Háskólar í Nova Scotia voru einnig rýmdir og einn grunsamlegur pakki sem fannst í nágrenni bókasafns í Halifax í Nova Scotia, en hann reyndist við nánari skoðun aðeins innihalda rusl.

Játvarðseyja er minnsta fylki Kanada og búa um 146.000 manns á eyjunni.

Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada, sagði við fréttamenn í Ontario að „öll börnin væru örugg.“

„Sem foreldri þá veit ég hversu miklum áhyggjum svona aðstæður geta valdið,“ sagði Trudeau eftir að hafa fengið  upplýsingar frá ráðuneyti almannavarna.

Farið var með nemendur á öruggan stað og foreldrar þeirra látnir sækja þá þangað að sögn alríkislögreglunnar.

Fréttavefur BBC segir skólastarf verða með hefðbundnu sniði á Játvarðseyju í fyrramálið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert