Tilhæfulausar ásakanir um barnaníð

AFP

Danskur leikskólakennari, Malthe Thomsen, sem var árið 2014 sakaður um barnaníð í New York fær 500 þúsund danskar krónur, 8,6 milljónir íslenskra króna, í bætur frá ríkinu vegna málsins. Það er aðeins brot af því sem hann fór fram á.

Frétt mbl.is: Krefur New York ríki um bætur

Malthe Thomsen samþykkti í gær samkomulag í málinu gegn lögreglunni í New York og New York ríki. Hann var handtekinn og reynt að þvinga hann til að játa sök.

Jane Fischer-Byrialsen, lögfræðingur hans segir að hún telji að hann hafi átt að fá mun hærri bætur en hann fékk. Það verði hins vegar að vega og meta aðstæður hverju sinni og hvort það sé fyrirhafnarinnar virði að fara í gegnum erfið réttarhöld.

Thomsen, sem var 23 ára á þessum tíma, var sakaður um að hafa beitt þrett­án börn kyn­ferðis­legu of­beldi á leik­skóla þar sem hann var í starfs­námi árið 2014. Tólf af þrett­án börn­um, sem Thomsen var sakaður um að hafa beitt of­beldi, neituðu því að hann hefði beitt þau kyn­ferðis­legu of­beldi. Þrett­ánda barnið var sagt hafa gefið vís­bend­ing­ar um að hafa verið beitt kyn­ferðis­legt of­beldi en því ekki frek­ar lýst í hverju þær vís­bend­ing­ar fólust. Þrátt fyr­ir eng­in sönn­un­ar­gögn um sekt Thom­sens var ít­rekað þrýst á hann að játa sök.

Thomsen höfðaði mál gegn fyrrverandi samstarfsmanni sem sakaði hann um að hafa beitt börn kynferðislegu ofbeldi í starfi sínu og eins höfðaði hann mál gegna lögreglunni í New York sem hann segir hafa þvingað sig til að játa á sig rangar sakir.

Allar sakargiftir á hendur honum voru felldar niður í nóvember 2014 eftir fimm mánaða rannsókn en Thomsen var handtekinn í júní það sama ár sakaður um kynferðisbrot gagnvart 13 börnum eins og áður sagði. Hann hélt því staðfastlega fram að hann væri saklaus og að lögreglan hafi gabbað hann til þess að játa. Thomsen var haldið í gæsluvarðhaldi á Rikers eyju, einu alræmdasta fangelsi Bandaríkjanna þangað til hann var látinn laus gegn tryggingu. Hann hefur lýst því í dönskum fjölmiðlum hvernig hótanir sem hann varð fyrir af hálfu annarra fanga hafi orðið til þess að hann var settur í algjöra einangrun. Dvölin í fangelsinu hafi verið martröð frá upphafi til enda.

Málið gegn Thomsen hélt hvorki vatni né vind og í ágúst 2014 var ljóst að 12 af 13 börnum sem hann átti að hafa beitt kynferðislegu ofbeldi könnuðust ekki við neitt slíkt. Í ljós kom að allt málið byggði á ásökunum samstarfskonu hans, Mariangela Kefalas, konu sem verjandi Thomsens segir að hafi verið rekin frá leikskólanum fyrir að hafa búið til allan þennan drama. 

Samkvæmt New York Times á Kefalas að hafa kært Thomsen aðeins nokkrum dögum eftir að hún var rekin úr starfi. Mynd­skeið sem hún lét lög­reglu fá af Thom­son að störf­um bentu ekki til þess að neitt sak­næmt hefði átt sér stað en hún sagði að hann hefði látið börn­in snerta kyn­færi sín og eins hefði hann snert litl­ar stúlk­ur inn­an klæða. 

Kefalas hefur höfðað skaðabótamál gegn leikskólanum fyrir að hafa rekið sig úr starfi og að brotið hafi verið á rétti hennar sem uppljóstrara. Niðurstaða rannsóknar leikskólans var sú að ekkert var hæft í ásökunum hennar gagnvart Thomsens.

Mæður Thomsens þurftu að veðsetja hús sitt og tókst að safna saman nægu fé til þess að greiða lögfræðikostnað sonar síns sem skilaði honum lausn úr haldi á sínum tíma. En þrátt fyrir samkomulagið í gær þá er máli hans hvergi nærri lokið því lögsókn hans á hendur Kefalas er enn í gangi og segir Fischer-Byrialsen fastlega gera ráð fyrir að málið endi fyrir dómi.

Frétt danska ríkissjónvarpssins

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert