3 ára lifði af 3 daga vist í síberískum skógi

Tserin Dopchut hefur fengið viðurnefnið Mowgli í síberískum fjölmiðlum fyrir …
Tserin Dopchut hefur fengið viðurnefnið Mowgli í síberískum fjölmiðlum fyrir seigluna. En Mowgli var munaðarlausi drengurinn í frumskógarsögu Rudyard Kiplings, Jungle Book.

Þriggja ára drengur lifði af þriggja sólarhringa vist í skógi í Síberíu á svæði þar sem mikið er um úlfa og birni. Drengurinn sem heitir Tserin Dopchut var með eitt lítið súkkulaðistykki í vasanum þegar hann rölti af stað út í skóg.

Tserin eyddi nóttunum á bæli undir lerkitré að sögn dagblaðsins Siberian Times.

Mikill fjöldi björgunarmanna leitaði að drengnum, sem talið er að hafi verið að elta hvolp þegar hann hvarf.

Drengurinn hafði verið í pössun hjá langömmu sinni í þorpinu Khut að sögn síberískra fjölmiðla, en ráfaði burt þegar hún leit af honum og gekk inn í þétt skóglendið  sem er í  Tuva fylkinu.

Í þrjá sólahringa þurfti hann síðan að takast einn á við hættuna sem fylgir frostköldum nóttum, villtum dýrum og straumharðri á á svæðinu, áður en frændi hans fann hann.

„Ástandið var mjög hættulegt. Áin Mynas er mjög straumhörð og köld, ef lítið barn dettur þar út í þá deyr það,“ sagði Ayas Saryglar, yfirmaður almannavarna í Tuva, í viðtali við Siberian Times.

„Það eru úlfar og birnir í skóginum og birnirnir eru núna að fita sig fyrir vetrardvalann. Þeir eru vísir með að ráðast á allt sem að hreyfist,“ sagði hann.

„Því til viðbótar þá er hlýtt á daginn, en svo fellur  hitastigið niður fyrir frostmark á nóttunni. Ef við höfum í huga að barnið hvarf að degi til og var þar af leiðandi ekki almennilega klætt – aðeins í skyrtu og skóm, engum jakka.“

Þorpsbúar tóku þátt í leitinni með lögreglu og var drengsins leitað dag sem nótt, en þyrlu var m.a. flogið yfir 120 ferkílómetra svæði í leit að honum.

Björgunarmennirnir voru fljótir að lofa drenginn og það frumkvæði sem hann sýndi er hann fann sér þurran stað undir lerkitré til að sofa á.

„Allt þorpið heldur nú veislu til að fagna því að hann sé fundinn heill á húfi,“ sagði Sholban Kara-Ool yfirmaður héraðsins.

Drengurinn hefur fengið viðurnefnið  Mowgli í síberískum fjölmiðlum fyrir seigluna, en Mowgli var munaðarlausi drengurinn í frumskógarsögu  Rudyard Kiplings, Jungle Book.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert