Fílabein tákn eyðileggingar ekki munaðar

Vilhjálmur Bretaprins hefur áhyggjur af stöðu fíla í Afríku.
Vilhjálmur Bretaprins hefur áhyggjur af stöðu fíla í Afríku. AFP

Vilhjálmur Bretaprins hefur miklar áhyggjur af því að fílar gætu dáið út á næstu árum ef ekki verði gripið inn í þróun mála. Sky greinir frá málinu.

Prinsinn segir fílabein vera tákn „eyðileggingar en ekki munaðar“ en hann talar fyrir því að fílabein hætti að ganga kaupum og sölum á milli manna.

„Þegar ég fæddist (árið 1982) var ein milljón fíla á reiki í Afríku. Þegar dóttir mín fæddist í fyrra voru 350.000 fílar eftir,“ sagði Vilhjálmur á ráðstefnu í London. Hann harmar þau áhrif sem veiðimenn og sölumenn fílabeina hafa.

„Með áframhaldandi hraða ólöglegra veiða verða afrískir fílar útdauðir þegar Charlotte verður 25 ára gömul,“ bætti prinsinn við.

Hann telur að ógnin sem villt dýralíf Afríku stendur frammi fyrir hafi einnig áhrif á alla íbúa heimsins. „Fátækustu íbúar heimsins munu þjást þegar þeirra náttúrulegu auðlindir eru teknar frá þeim ólöglega og með valdi.“

Náttúruverndarsinnar hafa áður lýst áhyggjum sínum af stöðu fíla. Íhaldsmenn hétu því fyrir síðustu kosningar að upp­ræta inn­lend­an markað með fíla­bein. Engar aðgerir hafa hins vegar litið dagsins ljós. 

Alþjóðleg lög eru í gildi sem banna sölu fíla­beins. Hins vegar gerir skort­ur á staðbundn­um regl­um og eft­ir­fylgni glæpa­gengj­um kleift að smygla vör­unni inn til Bret­lands, þar sem hún er seld sem forn­mun­ir.

Vilhjálmur Bretaprins.
Vilhjálmur Bretaprins. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert