Lokuðu sig inni í geymslu í örvæntingu

Egypskir sjómenn standa á þilfari fiskiskips sem aðstoðar við leitina …
Egypskir sjómenn standa á þilfari fiskiskips sem aðstoðar við leitina í Miðjarðarhafi. AFP

Þau voru á leið til Evrópu. Í leit að von og betra lífi. Þau fóru um borð í bátinn en í stað þess að sigla af stað yfir Miðjarðarhafið beið hann úti fyrir ströndinni í fimm daga. Og sífellt fleiri flóttamenn bættust við. Sjóferðin endaði með skelfingu. Bátinn hvolfdi og hundruð drukknuðu. 163 var bjargað. Aðeins 42 lík hafa fundist. 550 voru um borð. Um 100 þeirra reyndu að bjarga lífi sínu með því að fara inn í kæligeymslu er báturinn tók að sökkva. Björgunaraðgerð er enn í gangi og er sjónum m.a. beitt að þessari geymslu.

Þetta hörmulega slys sem varð 12 kílómetrum undan ströndum Egyptalands varð aðeins nokkrum dögum eftir að landamærastofnun Evrópusambandsins varaði við því að flóttaleiðin frá Afríku væri að færast frá Líbýu til Egyptalands. 

Fjórir úr áhöfn skipsins hafa verið handteknir. Þeir eru grunaðir um manndráp af gáleysi og mansal. Þeir eru sagðir hafa rukkað farþega sína aukalega fyrir leigu á björgunarvesti um borð. Kona sem bjargaðist segir í samtali við BBC að bátinn hafi hvolft er um 150 manna hópur fólks kom um borð. 

Fiskimenn sem voru við veiðar undan ströndinni voru fyrstir á vettvang og hófu björgunaraðgerðir. 

Í bátnum voru bæði flóttamenn og farandverkafólk, en báðir þessir hópar telja sig ekki getað lifað mannsæmandi eða öruggu lífi í sínum heimalöndum vegna átaka, atvinnuleysis og uppskerubrests. Fólkið var frá Egyptalandi, Sýrlandi, Súdan, Erítreu og Sómalíu. Fjölmargir þeirra sem lifðu slysið af hafa verið hnepptir í varðhald. 

Frá árinu 2014 hafa meira en 10 þúsund manns dáið á leið sinni til Evrópu yfir Miðjarðarhafið. 

Kona sem lifði slysið af sefur á gólfi á lögreglustöð …
Kona sem lifði slysið af sefur á gólfi á lögreglustöð í Rashid í Egyptalandi. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert