„Hann verður bróðir okkar“

Bréf Alex til Obama.
Bréf Alex til Obama. Ljósmynd/Hvíta húsið

Bréf sem hinn sex ára Alex sendi Barack Obama hefur vakið mikla athygli en í bréfinu biður Alex forsetann um að ná í sýrlenskan dreng og koma með hann heim til sín. Sýrlenski drengurinn er Omran Daqneesh en mynd sem tekin var af honum í kjölfar loftárásar í Aleppo fór eins og eldur um sinu á netinu og vakti mikla reiði.

„Kæri Obama forseti, mannstu eftir drengnum sem sjúkrabíllinn sótti í Sýrlandi?“ skrifar Alex. „Getur þú vinsamlegast farið og sótt hann og komið með hann heim til okkar... við munum bíða með fána og blóm og blöðrur. Við munum gefa honum fjölskyldu og hann verður bróðir okkar.“

Ljósmyndin fræga af Omran Daqneesh.
Ljósmyndin fræga af Omran Daqneesh. AFP

Hvíta húsið hefur birt bréf Alex og Obama vitnaði í það á ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um flóttamannavandann fyrr í vikunni. Í kjölfarið tóku starfsmenn Hvíta hússins upp myndskeið þar sem Alex sést lesa bréfið sitt.

„Við ættum öll að vera meira eins og Alex,“ sagði forsetinn. „Ímyndið ykkur hvernig heimurinn liti út ef við værum það. Ímyndið ykkur þjáninguna sem við gætum linað og lífin sem við gætum bjargað.“

Margir hafa tjáð sig um frumkvæði Alex á samfélagsmiðlum.

„Sex ára drengur sem býr yfir meiri manngæsku, ást og skilningi en flestir fullorðnir. Lof sé foreldrum hans,“ sagði Texas-búi á Facebook. „Hvorugur þessara yndislegu litlu drengja, sona einhverra, eru Skittles,“ sagði annar og vísaði þar til mjög svo umdeilds tísts Donald Trump yngri.

Hvíta húsið sagði frá því í ágúst sl. að Bandaríkin hefðu tekið á móti 10.000 sýrlenskum flóttamönnum það sem af var ári. Að sögn Obama stendur til að taka á móti 110.000 til viðbótar á fjárhagsárinu 2017.

BBC sagði frá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert