Kallaði flóttamenn „viðbjóðslega orma“

AfD-liðar fagna kosningasigri í Berlín en gleðin hefur kárnað í …
AfD-liðar fagna kosningasigri í Berlín en gleðin hefur kárnað í vikunni vegna vafasams athæfis sumra frambjóðenda flokksins. AFP

Þýski hægriöfgaflokkurinn Annar kostur fyrir Þýskaland (AfD) hefur sparkað nýkjörnum þingmanni á sambandslandsþingi Berlínar úr þingflokknum eftir að upplýst var um hatursfull ummæli hans um flóttamenn. Lýsti hann þeim sem „viðbjóðslegum ormum“ og „sníkjudýrum á þýsku þjóðinni“.

AfD vann verulega á í sambandsþingskosningum sem fóru fram í Berlín um síðustu helgi en flokkurinn hefur gert út á andúð á flóttamönnum og innflytjendum. Kay Nerstheimer var einn frambjóðenda flokksins sem náðu þingsæti. Fljótlega voru þó gamlar beinagrindur dregnar úr skápi Nerstheimer í formi færslna sem hann hafði ritað á Facebook.

Ummælin um „ógeðslega orma“ lét hann falla í fyrra og átti hann þar við sýrlenska flóttamenn en fyrr á þessu ári skrifaði hann að hælisleitendur væru „sníkjudýr sem nærast á þýsku þjóðinni“. Þá hefur verið bent á að Nerstheimer hafi áður tilheyrt öfgahægrihreyfingunni Þýska þjóðvarnarliðinu.

Frétt mbl.is: Merkel galt afhroð í Berlín

AfD í Berlín greip til þess ráðs að víkja Nerstheimer úr þingflokki sínum á sambandsþinginu vegna reiði almennings. Hann getur þó enn setið á sambandsþinginu sem óháður þingmaður. Flokkurinn hefur hins vegar ekki gripið til neinna ráðstafana til þess að reka Nerstheimer úr flokknum.

Annað deilumál um AfD geisar sömuleiðis í vesturhluta Þýskalands eftir að fjölmiðlar greindu frá því að Rudolf Möller, flokksmaður AfD, seldi muni frá nasistum. Möller er einn helsti frambjóðandi flokksins í sambandslandsþingkosningunum sem fara fram í Saarland á næsta ári. Hann seldi peninga úr útrýmingarbúðum nasista og orður með hakakrossinum í fornmunaverslun sinni. Ólöglegt er að selja muni nasista í Þýskalandi.

Möller hélt því fram að hann hefði ekki vitað að það væri ólöglegt að selja munina en viðurkenndi að það væri óviðeigandi einn helsti frambjóðandi AfD seldi muni af þessu tagi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert