Móðirin ákærð fyrir alvarlega vanrækslu

Valdres er í suður Noregi.
Valdres er í suður Noregi. Google Maps

Móðir 13 ára gamallar stúlku sem lést úr vannæringu í Noregi á nýársnótt er ákærð fyrir alvarlega vanrækslu. Saksóknari í Heiðmörk staðfesti þetta í samtali við Aftenposten í morgun.

Líkt og ítarlega hefur verið fjallað um á mbl.is lést stúlkan í sum­ar­bú­stað í Beitostøle á ný­árs­dag. Móðir stúlk­unn­ar óskaði eft­ir aðstoð og kom sjúkra­lið á vett­vang með þyrlu. Stúlkan var úrskurðuð látin en krufning leiddi í ljós að dánarorsök hennar var vannæring. Stúlkan hafði glímt við átröskun um tíma og verið í meðferð vegna þess. Þeirri meðferð hafði hins vegar verið hætt.

Að sögn saksóknara er móðirin ákærð fyrir brot á 283 grein hegningarlaga en í greininni er meðal annars fjallað um alvarlegt ofbeldi og misnotkun á börnum.

Mæðgurnar höfðu dvalið í sumarbústaðnum frá því í lok september - byrjun október. Móðirin neitar að hafa gerst sek um saknæmt athæfi. En talið er að móðirin hafi ekki veitt dóttur sinni þá aðstoð lækna sem hún hafi þurft á að halda eftir að hafa verið lögð inn á sjúkrahús fyrr á árinu vegna átröskunar.

Mál stúlkunnar vakti mikil viðbrögð í Noregi en í apríl var birt skýrsla frá sýslumanninum í Óskó og Akerhus um stúlkan hafi ekki fengið þá aðstoð sem hún hafi þurft á að halda. Barnavernd í Bærum og Valdres er harðlega gagnrýnd í skýrslunni fyrir að  hafa brotið landslög í máli stúlkunnar. Í frétt Aftenposten kemur fram að bent hafi verið á slæma stöðu stúlkunnar en barnavernd í Bærum hafi ekki brugðist rétt við. Í nóvember hafði barnavernd í Bærum samband við barnaverndaryfirvöld í Valdres og fékk þau svör að stúlkan gengi í skóla. Sama dag og þau skilaboð bárust var lögregla beðin um að kanna hvernig stúlkan hefði það í sumarbústaðnum. Í tvígang fór lögregla í sumarbústaðinn og sagði að enginn væri þar. Því var það niðurstaða barnaverndar að fjölskyldan hefði flutt til Ósló og að best væri að hafa samband við barnavernd þar. En skilaboðin voru ekki send fyrr en fjórum dögum eftir lát stúlkunnar.

Umfjöllun Aftenposten í dag

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert