Stálu upplýsingum frá 500 milljón Yahoo notendum

Meðal þeirra upplýsinga sem teknar voru frá notendum Yahoo eru …
Meðal þeirra upplýsinga sem teknar voru frá notendum Yahoo eru nöfn, netföng, upplýsingar um fæðingadaga og dulkóðuð lykilorð. AFP

Tölvuþrjótar stálu upplýsingum 500 milljón notenda netfyrirtækisins Yahoo árið 2014 og er það talið umfangsmesti gagnastuldur netupplýsinga til þessa, að því er greint er frá á fréttavef BBC.

Meðal þeirra upplýsinga sem tölvuþrjótarnir komust yfir voru persónulegar upplýsingar á borð við nöfn og netföng, sem og dulkóðaðar öryggisspurningar og svörin við þeim. Engar kreditkortaupplýsingar voru hins vegar í gögnunum sem var stolið. Að því er fram kemur í upplýsingum frá forsvarsmönnum Yahoo þá telja þeir eitthvert þjóðríki hafa staðið að árásunum.

Bandaríski fjarskiptarisinn Verizon keypti Yahoo fyrir 4,8 milljarða dollara í júlí á þessu ári. Fréttir af mögulegri  netárás á Yahoo bárust síðan í ágúst þegar tölvuþrjótur sem þekktur er undir nafninu „Peace“ eða Friður reyndi að selja upplýsingar 200 milljón Yahoo notenda.

Netfyrirtækið staðfesti í dag að þjófnaðurinn hefði verið enn umfangsmeiri en fyrst var talið og að á meðal þeirra upplýsinga sem teknar voru hafi verið nöfn, netföng, upplýsingar um fæðingadaga og dulkóðuð lykilorð.

Fyrirtækið mælir nú með því að allir Yahoo notendur, sem ekki hafa breytt lykilorðum sínum frá 2014, breyti þeim strax.

„Truflanir og þjófnaðir tölvuþrjóta sem njóta stuðnings þjóðríkja hafa orðið sífellt algengari innan tæknigeirans,“ segir í yfirlýsingu frá Yahoo.

Reuters-fréttastofan hefur eftir þremur ónefndum bandarískum leyniþjónustumönnum  að þeir telji rússnesk stjórnvöld standa að árásinni, þar sem hún líkist árásum sem þegar hafa verið raktar til rússnesku leyniþjónustunnar.

„Yahoo mun líklega  og réttilega svo, vera undir smásjánni hjá eftirlitsaðilunum, fjölmiðlum  og almenningi,“ hefur BBC eftir Nikki Parker varaforstjóra öryggisfyrirtækisins Covata. „Fyrirtæki geta ekki horft framhjá gagnaþjófnaði og þau verða að sýna sig staðráðin í að leysa vandann.“

BBC hefur eftir Verizon, eiganda Yahoo, að fyrirtækið hafi fyrst frétt af gagnaþjófnaðinum fyrir tveimur dögum síðan og að það búi enn yfir takmörkuðum upplýsingum.

„Við metum stöðuna eftir því sem rannsókninni vindur fram,“ sagði í svarið Verizon. „Þangað til  tjáum við okkur ekki frekar um málið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert