Trump tengir eiturlyf mótmælunum í Charlotte

Donald Trump, forsetaframbjóðandi Repúblikanaflokksins, gaf í dag í skyn að eiturlyfjaneysla í fátækrahverfum væri ein af ástæðum átakanna sem kom til í mótmælunum í Charlotte í norðurhluta Karólínuríkis.

 „Eiturlyf eru mjög stór liður í því sem þið eruð að horfa á í sjónvarpinu í kvöld, ef þið áttið ykkur ekki á því,“ sagði Trump á fundi með leirgasframleiðendum.

Rík­is­stjór­inn í Norður-Karólínu lýsti yfir neyðarástandi í borg­inni vegna átaka milli mót­mæl­enda og lög­reglu aðra nótt­ina í röð. Þjóðvarðlið var þá sent til borg­ar­inn­ar, en átök­in brut­ust út eft­ir að lög­regl­an skaut svart­an mann til bana þar á þriðju­dag.

Lögregla sagði manninn,  Keith Lamont Scott, hafa verið vopnaðan en fjölskylda hans og nágrannar segja Scott hafa haldið á bók og að hann hafi verið að bíða eftir skólabíllinn skilaði syni sínum heim.

Trump er búinn að vera á kosningaferðalagi í Pennsylvaníu og Ohio. Hann tjáði sig um ástandið í Charlotte á fundi sínum í Pittsburgh þar sem hann hvatti til „sameiningar og eindrægni“ og að endi yrði bundinn á ofbeldi gegn lögreglumönnum.

Trump sagðist viðurkenna rétt fólks til friðsamlegra mótmæla, en bætti jafnframt við að „enginn hefði rétt á að grípa til ofbeldisfullra truflana eða til að ógna friði og öryggi annarra“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert